Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um ábyrgðarsjóð launa

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um ábyrgðarsjóð launa (framlenging hlutabótaleiðar), 813. mál

Reykjavík, 22. maí 2020

BSRB hefur fengið til umsagnar ofangreint frumvarp og vill koma á framfæri athugasemdum sínum, en þær snúa allar að breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006.

Eins og fram kemur í frumvarpinu er tilefni þess samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 28. apríl sl. sem felur í sér stuðning við launafólk og fyrirtæki vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirunnar. Um er að ræða framlengingu úrræðis sem felur í sér að starfshlutfall starfsmanna sé minnkað en þeim gert kleift að sækja um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. lög nr. 23/2020 sem tóku gildi hinn 20. mars sl.

Í frumvarpi með lögum nr. 23/2020 kom skýrt fram að markmið þess væri að stuðla að því að fyrirtæki haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og frekast væri unnt, enda þótt það kynni að vera nauðsynlegt að minnka starfshlutfall þeirra að einhverju leyti. Þrátt fyrir það voru dæmi um fyrirtæki sem nýttu sér úrræðið þó ráðningarsambandi við starfsmenn hafi verið sagt upp. Samtök Atvinnulífsins töldu frumvarpið ekki nægilega skýrt hvað þetta varðar en Vinnumálastofnun tilkynnti, eftir að hafa átt fundi með samtökunum og Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), að engar hlutabætur yrðu greiddar til starfsmanna á uppsagnarfresti.

Í því frumvarpi sem um ræðir hér er ekki sambærilegt markmiðsákvæði en þó má lesa út úr efni þess að markmiðið sé hið sama og áður. BSRB telur það eiga að koma skýrt fram í lagatextanum að úrræðið sé eingöngu fyrir þau fyrirtæki sem ætla að viðhalda ráðningarsambandi við starfsmenn sína. Þannig séu tekin af öll tvímæli um þau atriði sem talin voru misvísandi eða voru misskilin í frumvarpi að lögum nr. 23/2020. Í þessu sambandi má benda á að til umsagnar er annað frumvarp sem fjallar um stuðning til fyrirtækja vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, sbr. þingskjal 1424, 811. mál.

BSRB fagnar því að sett séu skýr skilyrði fyrir því að fyrirtæki geti nýtt sér úrræðið og í lagatextanum verði kveðið sérstaklega á um hámarkslaun eigenda og æðstu stjórnenda fyrirtækja sem nýta sér úrræðið. Bandalagið telur þó að gæta þurfi að framkvæmd svo hún verði ekki of flókin og bitni þannig á réttindum launafólks. Í c. lið 1. gr. frumvarpsins segir að á eftir 5. mgr. komi átta nýjar málsgreinar. Í 2. mgr. koma fram atriði sem vinnuveitandi þarf aðstaðfesta eftir að launamaður hefur staðfest áframhaldandi nýtingu á úrræðinu. Þar þarf vinnuveitandi að staðfesta að samdráttur hafi orðið á rekstri, að hann hafi staðið í skilum með launatengd og opinber gjöld, að hann beri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, að hann hafi staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi sl. þrjú ár eftir því sem við á og að hann hafi ekki í hyggju að greiða út arð o.fl. næstu þrjú árin svo dæmi séu tekin.

Bandalagið fagnar þessum skilyrðum og telur þau nauðsynleg en áréttar að framkvæmdin þurfi að vera þess eðlis að fyrirtæki veigri sér ekki við því að fara í gegnum staðfestingarferlið. Atvinnuleysistryggingar eru réttindi einstaklinga en ekki fyrirtækja og því þarf framsetning lagaákvæða að taka mið af því. Að öðrum kosti gætu afleiðingarnar verið þær að réttindi eða staða starfsfólks á vinnumarkaði versni. Að sama skapi veltir bandalagið fyrir sér hvernig eftirliti með því verði háttað ef fyrirtæki einfaldlega sleppa því að staðfesta öll atriði ákvæðisins, eða hvort starfsmenn þurfi að tilkynna sérstaklega um það til Vinnumálastofnunar og hvernig fari þá með réttindi þeirra.

BSRB tekur undir athugasemdir ASÍ varðandi að bæta þurfi við upptalninguna þeirri skyldu fyrirtækja að upplýsa um raunverulegan eiganda þess, sbr. lög nr. 82/2019. Slíkt skilyrði er sett í frumvarpi til laga um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti og er mikilvægt að skilyrði milli úrræða stjórnvalda vegna kórónuveirunnar séu samræmd.

Að lokum vill BSRB hvetja stjórnvöld til þess að bregðast við og hækka atvinnuleysisbætur, í ljósi þeirrar fjölgunar sem hefur orðið og mun verða á atvinnuleysisskrá. Þá er jafnframt mikilvægt að lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Helsta efnahagslega áskorunin sem við stöndum nú frammi fyrir er fjöldaatvinnuleysi og óvíst er hvenær og hvernig ferðaþjónusta tekur við sér. Í millitíðinni er nauðsynlegt að auka kaupgetu fólks svo stuðla megi að aukinni neyslu hér innanlands. Slíkar aðgerðir eru til þess fallnar að stuðla að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika og vernda þannig heimilin í landinu.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?