Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum (breyting á A-deild sjóðsins), 6. mál – þskj. 6

Reykjavík, 21. desember 2016

 

Í ljósi stöðunnar óskar BSRB eftir því að efnahags- og viðskiptanefnd taki aftur til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um LSR. Lögð er mikil áhersla á að málinu ljúki í sátt við alla aðila samkomulagsins og vill bandalagið leggja fram neðangreinda tillögu til breytinga. Við teljum hana styrkja stöðu þeirra sem eru undir 60 ára.

Til frekari skýringar þá tekur frumvarpið í núverandi mynd til eftirfarandi:

A-deildin fer undir almennu lífeyrissjóðalögin sem felur í sér að ávinnsla verður aldurstengd og lífeyristökualdur 67 ára. Enn fremur verða eftirtaldar breytingar:

  1. Lífeyrisaukasjóður greiðir mun á annars vegar jafnri réttindaávinnslu og 65 ára lífeyristökualdri og hins vegar aldurstengdri réttindaávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri hjá núverandi sjóðfélögum í A-deild.
  2. Varúðarsjóðurinn bætir upp stöðu lífeyrisaukasjóðs ef hann getur ekki staðið við hlutverk sitt.
  3. 60 ára og eldri er tryggt skaðleysi.
  4. Geti varúðarsjóðurinn ekki staðið við hlutverk sitt verða teknar upp viðræður á milli launagreiðenda og heildarsamtaka opinberra starfsmanna um hvernig verði við því brugðist, sbr. c. lið 4. gr. viðauka 1 samkomulags aðila frá 19. september s.l.

Tillaga BSRB felur í sér að efnislega myndi frumvarpið kveða á um eftirfarandi en breytingartillagan er feitletruð:

A-deildin fer undir almennu lífeyrissjóðalögin sem felur í sér að ávinnsla verður aldurstengd og lífeyristökualdur 67 ára. Enn fremur:

  1. Lífeyrisaukasjóður greiðir mun á annars vegar jafnri réttindaávinnslu og 65 ára lífeyristökualdri og hins vegar aldurstengdri réttindaávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri hjá núverandi sjóðfélögum í A-deild.
  2. Varúðarsjóðurinn bætir upp stöðu lífeyrisaukasjóðs ef hann getur ekki staðið við hlutverk sitt og bætir upp stöðu A-deildar gagnvart núverandi sjóðfélögum ef kemur til skerðinga. Ef varúðarsjóðurinn tæmist innan 20 ára lýkur þá hlutverki hans og A-deildin sætir aukningu og skerðingu réttinda eins og aðrar deildir í almennu lífeyrissjóðalögunum.
  3. 60 ára og eldri er tryggt skaðleysi.
  4. Geti varúðarsjóðurinn ekki staðið við hlutverk sitt verða teknar upp viðræður á milli launagreiðenda og heildarsamtaka opinberra starfsmanna um hvernig verði við því brugðist, sbr. c. lið 4. gr. viðauka 1 samkomulags aðila frá 19. september s.l.

Munurinn felst því í að hlutverk lífeyrisaukasjóðs yrði óbreytt í frumvarpinu og samkvæmt skilningi fjármála- og efnahagsráðuneytis en hlutverk varúðasjóðs tekur breytingum. Miðað við fyrirliggjandi frumvarp takalífeyrisaukasjóður og varúðarsjóður eingöngu til framtíðarréttinda sjóðfélaga en skv. breytingartillögunni mun varúðarsjóðurinn taka á allri A-deildinni varðandi núverandi sjóðfélaga. Varúðarsjóðurinn mun því taka á því sama og bakábyrgðin gerir í dag.

Breytingartillagan nær því eingöngu til c. liðar (X.) 7. gr. frumvarps. Lagt er til að bætt sé við nýrri málsgrein á eftir þeirri fyrstu og hún hljóði svo í heild sinni en tillögur að breytingu eru feitletraðar:

c. (X.)

Ríkissjóður skal fyrir 31. desember 2016 leggja til 8,4 ma.kr. í sérstakan varúðarsjóð og skal höfuðstóll hans varðveittur og ávaxtaður af lífeyrissjóðnum. Varúðarsjóður skal að¬greindur frá öðrum fjármunum sem A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fer með og telst ekki með í reiknaðri hreinni eign til greiðslu lífeyris. Árleg ávöxtun varúðarsjóðs er lögð við höfuðstól hans.

Hlutverk varúðasjóðs er annars vegar að styðja við lífeyrisaukasjóð og hins vegar að bæta upp stöðu A-deildar ef tryggingafræðileg staða hennar er neikvæð til að tryggja að sjóðfélagar sem aðild eiga að sjóðnum fyrir 1. júní 2017 sæti ekki skerðingu réttinda, sbr. 39. gr. laga 129/1997.

Ráðherra skal skipa þrjá fulltrúa og BSRB, Bandalag háskólamanna og Kennarasamband Íslands þrjá fulltrúa í matshóp sem yfirfer tryggingafræðilega stöðu og ákveður hvort skilyrði fyrir ráðstöfun fjármuna úr varúðarsjóði eru uppfyllt. Komist matshópur ekki að niðurstöðu um nýtingu varúðarsjóðsins skulu aðilar velja sameiginlegan oddamann sem tekur þá sæti í matshópnum. Leggja skal mat á stöðu lífeyrisaukasjóðs:

a. Sé tryggingafræðileg staða lífeyrisaukasjóðs samkvæmt árlegu mati neikvæð um 10% eða meira í fimm ár eða hafi hún haldist neikvæð um a.m.k. 5% samfellt í meira en tíu ár skal leggja höfuðstól varúðarsjóðsins í heild eða að hluta við eignir lífeyrisaukasjóðs, í báðum tilvikum þar til að neikvæðu 5% viðmiði er náð, og fjármunirnir nýttir til að mæta skuldbindingum hans.

b. Að tuttugu árum liðnum frá stofnun varúðarsjóðs skal leggja höfuðstól hans í heild eða að hluta við eignir lífeyrisaukasjóðs að því marki sem þörf er á til að tryggingafræðileg staða hans verði jákvæð um a.m.k. 2,5%. Það sem eftir kann að standa af höfuðstóli varúðarsjóðs skal endurgreiða ríkissjóði nema ríkið telji að sérstök rök séu fyrir því að ráðstafa eftirstöðvunum til lífeyrisaukasjóðs eða A-deildar.

c. Komi í ljós að varúðarsjóðurinn geti ekki staðið við hlutverk sitt, þ.e. ef eign sjóðsins dugir ekki til að styðja þannig við lífeyrisaukasjóð að komist verði hjá skerðingu á greiðslum úr honum, skulu launagreiðendur taka upp viðræður við heildarsamtök opinberra starfsmanna um hvernig við því verði brugðist. Í þeim viðræðum skal lagt mat á hvort þær tryggingafræðilegu forsendur sem byggt er á við ákvörðun á framlagi í lífeyrisaukasjóð, svo sem forsendur varðandi útreikning á lífslíkum, hafi leitt til vanmats á fjárþörf sjóðsins. Verði það niðurstaðan skal brugðist við því þannig að markmið um jafn verðmæt réttindi sjóðfélaga séu tryggð.

Það er sjálfsagt að mæta á fund nefndarinnar og skýra málið frekar.

 

Fyrir hönd BSRB

Helga Jónsdóttir framkvæmdastjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?