Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um opinber fjármál

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015 (skilyrði um heildarjöfnuð og skuldahlutfall), 6. mál.

Reykjavík, 23. október 2020

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber fjármál og þakkar fyrir tækifærið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Með frumvarpinu er verið að leggja til að fjármálareglum í 7. gr. laganna verði vikið til hliðar fyrir árin 2023-2025 en fyrr á árinu var samþykkt að víkja frá reglunum á árunum 2020-2022. Auk þess er verið að leggja til að ekki þurfi sérstaka undanþágu frá lögunum vegna mögulegrar endurskoðunar á fjármálastefnu á sama tímabili. BSRB styður þessa tillögu enda kalla núverandi efnahagsaðstæður á slíka undanþágu.

Með frumvarpinu er fjármálaráði falið það hlutverk að leggja mat á það í umsögnum sínum um þingsályktunartillögur fyrir komandi ár, sem sagt um fjármálastefnu og fjármálaætlun, hvort „yfirlýst markmið stjórnvalda í opinberum fjármálum og framfylgd þeirra muni gera kleift að skilyrði í 7. gr. taki aftur gildi frá og með árinu 2026“. Í álitsgerð fjármálaráðs um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 kemur fram að ráðið telji þetta ákvæði, verði það að lögum, kalla á nýtt verklag og vinnubrögð fjármálaráðs við gerð álita sinna sem og hjá stjórnvöldum í stefnumörkun. Mikilvægt er að fjárlaganefnd skoði þetta ákvæði sérstaklega enda stangast þetta verkefni á við hlutverk fjármálaráðs sem er að leggja mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi grunngildum laganna. BSRB varar við því að fjármálaráð verði gert ábyrgt fyrir stefnumótandi ákvörðunum í ríkisfjármálunum.

BSRB telur mikilvægt að Alþingi endurskoði þær þrjár fjármálareglur sem kveðið er á um í lögunum. Hlutverk reglnanna er að stjórnmálafólk geti ekki tekið ákvarðanir sem eru skaðlegar fyrir ríkisfjármálin til lengri tíma en á hinn bóginn geta aðhaldsaðgerðir sem af reglunum leiða dregið úr getu ríkissjóðs til að sinna verkefnum sínum og alvarlegum áskorunum.

Mikil umræða er nú meðal sérfræðinga á sviði ríkisfjármála um hvernig beita eigi fjármálastjórninni vegna þeirrar stöðu sem uppi er í heiminum, þ.m.t. hvaða fjármálareglur þjóni samfélögum best án þess að stefna sjálfbærni ríkisrekstrar í voða. Fjármálaráð bendir á að sjálfbærni opinberra skulda sé ekki áhyggjuefni að svo stöddu en hún sé jafnframt breytileg vegna afkomu, hagvaxtarþróunar og vaxtastigs. Bent er á að flest lönd ætli sér að vaxa út úr efnahagslegum afleiðingum kreppunnar. Ráðið ítrekar líka ábendingu sína um að áhersla á jákvæða afkomu megi ekki valda rýrnun eignahliðar efnahagsreiknings hins opinbera. Þá hefur fræðafólk bent á að fjármálareglur megi ekki koma í veg fyrir að ráðist verði í mikilvægar fjárfestingar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðrar þær fjárfestingar sem leiða til verðmætasköpunar og velsældar til lengri tíma.

BSRB hvetur Alþingi til að nýta tækifærið og endurskoða fjármálareglurnar í lögum um opinber fjármál og taka mið af þeirri líflegu umræðu sem nú á sér stað meðal sérfræðinga í ríkisfjármálum um leiðina út úr yfirstandandi efnahagsvanda og til að takast á við áskoranir á sviði loftslagsmála.


Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?