Umsögn um frumvarp um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (tryggingagjald o.fl.), 314. mál

Reykjavík, 2. desember 2020

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld og þakkar fyrir að fá tækifæri til að koma sjónarmiðum bandalagsins á framfæri.

Tímabundin lækkun almenns tryggingjalds í 4,65%

Breytingin er í samræmi við loforð ríkisstjórnarinnar í tengslum við mat á forsendum kjarasamninga á almennum markaði í september síðast liðnum. Af þeim sökum leggst BSRB ekki gegn breytingunni. Hins vegar telur BSRB varhugavert að verið sé að lækka almennt tryggingagjald úr 4,9% í 4,65% á sama tíma og útgjöld vegna fæðingarorlofs eru að aukast vegna lengingar þess í 10 mánuði á yfirstandi ári og 12 mánuði á því næsta. Tryggingagjaldið hefur verið lækkað umtalsvert síðustu árin og því er mikilvægt að sú tímabundna lækkun sem frumvarpið kveður á um verði ekki framlengd síðar.

Aukin skattaívilnun vegna tekna af kaupréttum á hlutabréfum

Í dag má, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, skattleggja allt að 600.000 kr. af verðgildi slíkra kauprétta við sölu sem fjármagnstekjur en ekki launatekjur. Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að sú fjárhæð verði hækkuð í 1.500.000 kr. BSRB leggst gegn því að veittar séu frekari skattaívilnanir vegna tekna af kaupréttum starfsmanna.

Vörugjald af húsbílum

Af skýringum í greinagerð með frumvarpinu má ráða að losun húsbíla sé það mikil að veita þurfi sérstakan tímabundinn afslátt af vörugjöldum á þá. BSRB telur að sú undanþága sem verið er að framlengja með 13. grein frumvarpsins sé ekki í samræmi við Aðgerðaáæltun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

Greiðsla á lágmarki bifreiðargjalds vegna þungra hreinorkuökutækja

Með 12. grein frumvarpsins er verið að víkka heimildir fyrir niðurfellingu vörugjalds á sendibifreiðar og önnur ökutæki til vöruflutninga í atvinnuskyni sem eingöngu eru knúnar metani, metanóli, rafmagni eða vetni. Það er í samræmi við markmið stjórnvalda um að draga úr losun. BSRB telur varhugavert að veita slíkum bifreiðum einnig afslátt á bifreiðagjöldum eins og lagt er til 14. grein frumvarpsins. Rannsóknir sýna að áhrif af sköttum á öflun ökutækja eru mun meiri en af t.d. bifreiðagjöldum þegar kemur að vali á bifreið til kaupa. Skattaívilnanir vegna öflunar hreinorkubifreiða sem og tenging fjárhæðar bifreiðargjalds við losun hafa haft þann mikilvæga tilgang að draga smám saman úr losun frá vegasamgöngum en hafa einnig haft neikvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs. BSRB leggst því gegn því að lengra verði gengið, ekki síst vegna þess að bifeiðagjöldin hafa ekki afgerandi áhrif á val við öflun bifreiða, og telur eðlilegt að bifreiðar yfir 3.500 kg greiði áfram bifreiðagjald til samræmis við þyngd sína.

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?