Umsögn um frumvarp um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, 438. mál.

Reykjavík, 12. maí 2017

 

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, 438. mál. Bandalagið styður framgang málsins og fagnar markmiðum þess.

Hins vegar er rétt að vekja athygli á samspili réttinda fatlaðs fólks sem mun nýta sér notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og réttinda þeirra starfsmanna. BSRB, líkt og ASÍ, hafa ítrekað komið á framfæri að við frekari þróun NPA bæði í tilraunaverkefninu og undirbúningi lögfestingar þess verði að fjalla einnig um starfsmannahliðina.

Í 5. málsl. 2. gr. frumvarpsins er hugtakið notendasamningur skilgreint en þar segir:

Notendasamningar: Samningur við sveitarfélag sem felur í sér að notandi stjórnar þeirri aðstoð sem hann fær þannig að hann skipuleggur hana, ákveður hvenær og hvar hún er veitt og velur aðstoðarfólk. Notendasamningar geta verið í formi beingreiðslusamnings, þar sem notandi sér alfarið um starfsmannahald sjálfur, notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar eða þjónustufyrirkomulags þar sem notandi stýrir sjálfur þjónustu við sig þó að þeir sem aðstoði hann séu starfsmenn sveitarfélags.

Ákveði notandi samkvæmt þessari heimild að sjá alfarið um starfsmannahald sjálfur felur það í sér að hann ber sömu skyldur og atvinnurekendur gera. Tryggja þarf að þeir sem kjósi að gerast atvinnurekendur í þessum skilningi fái fræðslu um skyldur sínar vegna starfsmanna sinna.

Líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu á NPA sér lengri sögu á hinum Norðurlöndunum og stéttarfélög þeirra landa segja starfsumhverfið viðkvæmt fyrir árekstrum enda eru starfsmenn almennt einir við störf. Dæmi um það sem reynt hefur á er að starfsmenn eru látnir lyfta þungum byrðum, samskiptavandamál ýmiskonar, möguleikar til launaþróunar eru lélegir og vinnutími sé of sveigjanlegur og samræmist ekki reglum um hvíldartíma svo eitthvað sé nefnt. Áréttað skal að þetta eru atvik sem geta átt sér stað að meginstefnu hvar sem er á vinnumarkaði en ágætt að hafa það í huga að ráðningarsamband sem byggist á NPA er þar ekki undanskilið. Í ljósi þess að starfsumhverfið er nokkuð óhefðbundið hafa samtök launafólks í þessum löndum unnið að og kallað eftir sérstökum reglum varðandi starfsmenn NPA sem eru mislangt á veg komnar.

Samkvæmt þessu leggur bandalagið mikla áherslu á að settar séu reglur sem taka til starfsmanna fatlaðs fólks sem nýtir þjónustuna. Til dæmis verður að vera fyrir hendi einhver aðili annar en sá sem nýtir þjónustuna, m.ö.o. atvinnurekandinn í þessum skilningi, sem starfsmenn geta leitað til við alvarlegar aðstæður s.s. vegna launamissis, áreitni eða ofbeldis. Við framkvæmd tilraunaverkefnsins kom upp að ábyrgð á laungreiðslum gæti verið óskýr t.d. ef upp komu langtímaveikindi starfsmanns. Það er ekki síður mikilvægt að tryggt sé að nægilegt fjármagn sé lagt til verkefnisins svo að notendur þess hafi ráðrúm til að hafa nægt starfsfólk til að anna þjónustunni og einnig svo að kaup og kjör starfsfólks sé í samræmi við lög, kjarasamninga og ráðningarsamning.

 

Fyrir hönd BSRB

 

Helga Jónsdóttir
framkvæmdastjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?