Umsögn um frumvarp um um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda

 

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda (tekjuskattur einstaklinga, barnabætur, persónuafsláttur)

Reykjavík, 7. október 2019

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp um fjölgun þrepa í tekjuskattskerfinu úr tveimur í þrjú, lækkun persónuafsláttar og hækkun lægri skerðingamarka tekna í barnabótakerfinu.

Fjölgun þrepa

BSRB fagnar því að fjölga eigi skattþrepum í tekjuskattskerfinu en telur að frekari breytinga sé þörf til að efla tekjujöfnun og tekjuöflun kerfisins með viðbótarþrepi á hæstu tekjurnar. Þá veldur það vonbrigðum hversu seint lækkunin á að koma til framkvæmda að fullu. Breytingarnar kosta um 5,5 ma kr. á árinu 2020 og 21 ma kr. árlega þegar breytingin verður að fullu komin til framkvæmda árið 2021. BSRB mótmælir því að tekjutapinu verði fyrst og fremst mætt með aðhaldi í rekstri eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu í stað frekari tekjuöflunar. Í þessu sambandi má benda á að auðlegðarskatturinn sem var aflagður árið 2014 aflaði tæpra 11 ma kr. í ríkissjóð það ár.

Persónuafsláttur og þrepamörk

Sú breyting að bæði skattleysis- og þrepamörk fylgi sömu viðmiðum er mjög til bóta og tryggir betur tekjujöfnunarhlutverk tekjuskattskerfisins. Í dag fylgir persónuafsláttur vísitölu neysluverðs en þrepamörkin vísitölu launa. Með frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvæði LIX í lögum 90/2003 verði framlengt til næstu tveggja ára, sem þýðir að þrepamörkin hækka til samræmis við vísitölu neysluverðs í stað launavísitölu. Um breytingu á viðmiði persónuafsláttar er sett bráðabirgðaákvæði til tveggja ára um sérstaka aðferð við breytingar á persónuafslætti og mun hann lækka fyrir tekjuárin 2020 og 2021. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að til framtíðar eiga þrepa- og skattleysismörk að hækka til samræmis við vísitölu neysluverðs og framleiðniaukningu vinnuafls. Ekki liggur fyrir hvernig útfæra á reiknireglu fyrir þessi markmið. BSRB hvetur til þess að mælikvarðarnir verði skýrir en valdi ekki árlegri deilu líkt og mælikvarðar til hækkunar í lögum um almannatryggingar.

Samnýting skattþrepa (samsköttun)

Í greinagerð með fjármálaáætlun 2020-2024 sem samþykkt var á Alþingi sl. vor er fjallað sérstaklega um samsköttun hjóna og sambýlisfólks og þar segir m.a. að „úrræðið í núverandi mynd [valdi] umtalsverðum neikvæðum hvataáhrifum á vinnuframlag tekjulægri makans, sem er í níu af hverjum tíu tilvikum kona. Meðal Norðurlandanna er umfang samsköttunarúrræða mest á Íslandi og í greiningum OECD á sk. þátttökuskattafleyg síðari sambúðaraðilans inn á vinnumarkað er slíkur þátttökuskattafleygur hvergi hærri innan OECD en á Íslandi. Samspil samnýtingar skattþrepa við samnýtingu persónuafsláttar veldur því að 46,24% jaðarskattur er á fyrstu krónu aðila sem vill fóta sig á vinnumarkaði ef maki viðkomandi er með tekjur yfir þrepamörkum.“ Í fyrirliggjandi frumvarpi er lagt til að dregið verði úr samsköttun maka með lækkun þeirrar fjárhæðar sem leyfilegt er að nýta til samsköttunar og skattahlutfallið hækkar um eitt prósentustig frá og með árinu 2021. BSRB hvetur til þess að horfið verði alfarið frá samsköttun tekjuskatts líkt og fjármálaráðherra boðaði í febrúar sl. Atvinnuþátttaka kvenna er mjög há á Íslandi en rúmlega þriðjungur kvenna er í hlutastörfum vegna þess að þær axla meginábyrgð á fjölskyldu- og heimilisstörfum. Heimild til samsköttunnar stuðlar að því að viðhalda þessari kynjuðu verkaskiptingu í fjölskyldum og kjarabili á milli kynjanna.

Barnabætur

Barnabótakerfið er flókið og var flækt enn frekar á yfirstandandi fjárlagaári með viðbótarskerðingarþrepi fyrir mánaðartekjur umfram 458.000 kr. hjá einstæðum foreldrum og 917.000 kr. hjá pörum. Í frumvarpinu er lagt til að lægri skerðingarmörk vegna tekna verði hækkuð úr 300.000 kr. á mánuði í 325.000 kr. hjá einstæðum foreldrum og úr 600.000 í 650.000 kr. hjá pörum. Ekki er lögð til hækkun á hámarksfjárhæðum bótanna, né efri skerðingarmörkum og ekki dregið úr bröttum tekjutengingum. BSRB leggur áherslu á mikilvægi þess að barnabætur eigi að vera almennur stuðningur við fjölskyldur líkt og á öðrum Norðurlöndum. Í greinagerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020 kemur fram að fjárveitingar til barnabóta hækki um 1 ma kr. árið 2020 samkvæmt loforði ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þar kemur einnig fram að 500 m kr. afgangur sé af fjárveitingum til barnabóta á fjárlagaárinu 2019. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hafa áætluð útgjöld til barnabóta ekki skilað sér að fullu sl. 6 ár, að árinu 2018 undanskildu. Sum árin hafa barnafjölskyldur orðið af allt að 1,3 ma kr. Mikilvægt er að gengið verði úr skugga um að skerðingarmörk og tekjumörk bótanna séu þannig að hækkunin nái markmiði sínu.

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda (tekjuskattur einstaklinga, barnabætur, persónuafsláttur)

BSRB hvetur til þess að barnabætur verði hækkaðar þannig að bæturnar haldi raungildi sínu og að efri skerðingarmörkin verði hækkuð til samræmis við þau lægri en að öðrum kosti fækkar þeim sem eiga rétt á bótunum.

Samantekt

BSRB fagnar því að lækka eigi tekjuskatt á lægri tekjur en telur að fjölga þurfi skattþrepum enn frekar með hærra skattþrepi á allra hæstu tekjurnar.

Hvatt er til þess að viðmiðunarmörk til hækkunar þrepa- og skattleysismörkum tekjuskattskerfisins verði skýrt skilgreind í lögum svo hækkun hvers árs fylgi opinberum mælikvarða.

BSRB leggur til að samsköttun tekjuskatts hjóna og sambýlisfólks verði aflögð enda dregur hún úr hvata kvenna til launavinnu og viðheldur hefðbundinni kynjaðri verkaskiptingu á heimilum og kjarbili.

Kanna verður sérstaklega hvort viðmiðunarmörk barnabótakerfisins fyrir tekjur og skerðingarmörk séu til þess fallin að viðbótarfjárveitingar skili sér til barnafjölskyldna. BSRB leggur áherslu á að hámarksbætur verði hækkaðar og efri skerðingarmörk tekna hækkuð ekki síður en lægri skerðingarmörk.

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?