Umsögn um tillögu til þingsályktunar um afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, 397 mál

Reykjavík, 27. mars 2020

BSRB hefur fengið ofangreinda þingsályktunartillögu til umsagnar. Með tillögunni er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið, í samráði við félags- og barnamálaráðherra, að hefja viðræður við samtök opinberra starfsmanna um að afnema úr lögum ákvæði sem kveða á um 70 ára starfslokaaldur starfsmanna ríkisins. BSRB fagnar tillögunni og lýsir sig reiðubúið til þess að taka þátt í slíkri vinnu.

Bandalagið hefur sent frá sér umsagnir um samhljóða þingmál á undanförnum árum, nú síðast þann 31. október sl. þar sem frumvarp hafði verið lagt fram þess efnis að starfslokaaldur ríkisstarfsmanna yrði hækkaður úr 70 árum í 73 ár. Í umsögn sinni lýsti BSRB yfir stuðningi sínum við slíka lagabreytingu en lagði þó áherslu á að um starfslokaaldur starfsmanna sveitarfélaga sé fjallað í kjarasamningum og að breytingar sem þessar þurfi að fara fram í samráði við heildarsamtök opinberra starfsmanna og að unnið verði að breytingum á kjarasamningum starfsmanna sveitarfélaga samhliða breytingum á lögum. Þó er mikilvægt að um heimild sé að ræða, og opinberum starfsmönnum verði eftir sem áður gert heimilt að láta af störfum fyrr kjósi þeir svo.

Nýundirritaðir kjarasamningar aðildarfélaga BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga kveða á um heimild til handa sveitarfélaga að framlengja ráðningu starfsmanna sem hafa náð 70 ára aldri um allt að tvö ár. Það má því segja að sveitarfélögin séu komin lengra en ríkið hvað þessi réttindi varðar. Þá vill BSRB einnig vekja athygli á því að samhliða breytingum sem þessum þarf að líta til lífeyrissjóða, enda hefur komið í ljós að lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna taka ekki við lífeyrisgreiðslum eftir að starfsmaður hefur náð 70 ára aldri. Þannig er hægt sé að fresta töku lífeyris til allt að 80 ára aldurs í mörgum tilfellum en ekki heimilt að greiða iðgjöld, haldi starfsmaður áfram störfum eftir að hann nær 70 ára aldri.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?