Umsögn um tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020-2030

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020-2030, 278. mál

Reykjavík, 3. desember 2020

BSRB hefur tekið til umsagnar þingsályktunartillögu um menntastefnu fyrir árin 2020-2030 og lítur það jákvæðum augum að unnin sé stefnumótun af þessu tagi í menntamálum enda er menntun og skipulag menntamála ein af grunnstoðum íslensks samfélags.

Hér að neðan eru nokkur atriði sem bandalagið vill nefna sérstaklega:

  • BSRB er sammála þeim áherslum sem fram koma í hinum fimm grunnstoðum menntastefnunnar þar sem lögð er áhersla á jöfn tækifæri, kennslu í fremstu röð, hæfni fyrir framtíðina, gæði í menntun og ekki síst að setja vellíðan nemenda í öndvegi. BSRB leggur jafnframt sérstaka áherslu á mikilvægi markvissrar innleiðingar menntastefnu líkt og kveðið er á um í þriðja kafla þingsályktunarinnar, enda slík markviss innleiðinggrundvallarþáttur í að markmið stefnunnar verði að veruleika.
  • BSRB fagnar áherslu á starfs-, iðn- og tækninám sem og list- og verknám undir c-lið um hæfni fyrir framtíðina. Í því samhengi er ítrekað það sem fram kom í umsögn BSRB um menntastefnu til ársins 2030 frá síðasta þingi, og skilað var inn í samráðsgátt þann 13. mars 2020, að áhersla sé lögð „á að þær greinar starfsnáms sem enda ekki með sveinsprófi fái jafn mikið vægi og iðnnám. Hér er t.d. um að ræða nám sjúkraliða og félagsliða, auk annarra námsbrauta í umönnunar- og menntageiranum. Brýnt er að styrkja hlutverk þeirra starfsgreinaráða sem fjalla um þau störf sem félagsmenn aðildarfélaga BSRB sinna og búa ráðunum starfsaðstæður sem tryggja að þau geti sinn hlutverkum sínum af metnaði.“
  • BSRB leggur jafnframt áherslu á mikilvægi þeirra þátta tillögunnar sem snúa að hæfni fyrir framtíðina. Tekið er undir það sem fram kemur í greinargerð að færni þurfi að þróast í takt við þarfir samfélagsins og áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar, sem og aðgengi fólks að góðri og fjölbreyttri menntun alla ævi. Í þessu samhengi er hér aftur vitnað til umsagnar BSRB um menntastefnu frá því í vor: „Fyrirséð er að miklar áskoranir verði á vinnumarkaði á næstu árum og áratugum og tryggja þarf fólki, ekki síst fólki sem ekki hefur lokið formlegri menntun, tækifæri til þess að öðlast þá hæfni sem atvinnulíf framtíðar kallar á. BSRB minnir á tækifæri vinnustaðarins sem námsstaðar sérstaklega með tilliti til ævináms og uppbyggingar á hæfni. Mikilvægt er að opinberir vinnuveitendur séu þar virkir þátttakendur þar sem ljóst er að störf og þjónusta sem veitt er af starfsfólki ríkis og sveitarfélaga mun taka breytingum í fjórðu iðnbyltingunni. BSRB leggur áherslu á jafnrétti til náms óháð aðstæðum og á þetta ekki síst við um framhaldsfræðslukerfið. BSRB kallar eftir nánu samráði við bandalög launafólks um stefnumótun vegna fjórðu iðnbyltingarinnar, þróun á framhaldsfræðslukerfinu, raunfærnimati, notkun hæfnirammans og öðrum þeim verkfærum sem koma til með að verða notuð á komandi árum.“ Í þessu samhengi er ítrekað mikilvægi þess að framhaldsfræðslan sé vel sýnileg í heildarsýn stjórnvalda í menntamálum.
  • BSRB tekur undir þá áherslu sem lögð er á náms- og starfsráðgjöf í þingsályktunartillögunni og ítrekar jafnframt að þá þjónustu þurfi að bæta frá því sem nú er þannig að gott aðgengi að náms- og starfsráðgjöf sé tryggt og verði öllum aðgengilegt á öllum skólastigum.
  • BSRB leggur áherslu á að kynning og upplýsingagjöf verði aukin til að ná betur til þeirra sem hafa minnstu formlegu menntunina.
  • Loks leggur BSRB áherslu á það að hugað sé að því á öllum skólastigum að rjúfa kynbundna múra og að ýtt verði undir að fólk á öllum aldri sæki sér menntun í takt við áhuga og getu óháð staðalímyndum um hvað teljist hefðbundin karla- eða kvennastörf.

Fyrir hönd BSRB

Karl Sigurðsson
sérfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?