Ávarp 2. varaformanns BSRB 1. maí

Skoðun
Arna Jakobína Björnsdóttir, 2. varaformaður BSRB.

Ágætu félagar, til hamingju með daginn!

Dagurinn í dag, fyrsti maí, er haldinn hátíðlegur um heim allan með öllu launafólki og minnir okkur á mikilvægi samstöðunnar. Ávinningur samstöðu eru öll þau réttindi sem eru sjálfsögð í dag. Að eiga samningsrétt, veikindarétt, fara í fæðingarorlof, launað orlof og margt fleira. Þessi réttindi fengust eftir að miklar fórnir höfðu verið færðar og kostuðu oft hörð átök.

Samtök launafólks eru ekki smá eða kraftlítil - þau eru stór og búa yfir miklu afli. Í sameiningu - með samtakamættinum - skulum við virkja það afl sem í hreyfingunni býr, öllum landsmönnum til hagsbóta. Stöndum vörð um stéttarfélögin svo þau megi vaxa og dafna.

Við tökum þátt í baráttunni fyrir bættum lífskjörum með því að vera í stéttarfélögum og taka þátt í starfsemi þeirra. Við tökum þátt með því að taka að okkur að vera trúnaðarmenn á vinnustöðum. Við tökum þátt með því að kjósa um samninga og forystu okkar félaga.

Kjörorð dagsins í dag er „Jöfnum kjörin – Samfélag fyrir alla“. Við viljum ekki samfélag sérhyggju, þar sem hver og einn hugsar aðeins um sjálfan sig og þar sem almennt siðgæði og samfélagsleg ábyrgð er litin hornauga.

Við höfum búið við samtryggingarkerfi sem að grunni til er gott. Stoðir þessa kerfis eru menntakerfi, almannatryggingar, lífeyrissjóðir og ýmsir þættir velferðarþjónustu, en þar vegur heilbrigðiskerfið þyngst.

Í lífeyrissjóðunum er ekki spurt um það hvort foreldrar hafi haft heila- eða taugasjúkdóma eða krabbamein. Inn á heilsugæslustofnunum og á sjúkrahúsum hafa allir þeir sem eru sjúkir eða illa á sig komnir fengið aðhlynningu og lækningu. Hlúið hefur verið að fólki ef það hefur verið sjúkt og einu látið gilda hvort það hafi haft sykursýki, krabbamein, nýrnasjúkdóm eða aðra sjúkdóma. Allt þetta geta tryggingafélög sett fyrir sig.

Þetta er þau kerfi sem við verðum að hlúa að. Þetta eru kerfi sem við látum engan rífa niður! Í þeim felst það öryggi sem launafólk hefur búið við eftir baráttu þess sem aðili að launþegahreyfingu.

Umræða um einkavæðingu þvert á þjóðarvilja

Almannaþjónustan á að vera rekin á þeim grunni að einstaklingar greiði inn eftir efnum og taki út eftir þörfum. Grafið hefur verið undan félagslegum grunni kerfisins með hærri álögum á þá sem nýta þjónustuna. Og þvert á vilja þjóðarinnar heldur áfram umræða um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni. Það er ekki í anda samtryggingar að fjármunir sjúklinga renni í vasa einkaaðila með arðgreiðslum.

Stjórnvöld verða að efla heilbrigðiskerfið á félagslegum grunni en ekki á grundvelli hagnaðarsjónarmiða þeirra sem vilja standa í einkarekstri. Hafa verður í huga að forsenda þess að veita megi góða þjónustu er gott starfsumhverfi þeirra sem þar starfa.

Því miður verður ekki hjá því komist að nefna á nafn svarta atvinnustarfsemi. Hún er staðreynd á Íslandi og er talin vera um 15% af vergri þjóðarframleiðslu. Þetta eru gríðarlega miklir fjármunir. Þetta eru fjármunir sem fara ekki þangað sem þeir ættu að fara, í það að reka heilbrigðisþjónustuna og félagsleg kerfi.

Alltaf þarf að minna á að kjarasamningar og löggjöf tryggja launafólki réttindi og bætur. Við getum nefnt grundvallarréttindi eins og föst laun, hvíldartíma og frídaga eða veikindarétt og uppsagnarfrest. En þetta eru líka fæðingar- og foreldraorlof, reglur um mannsæmandi aðbúnað á vinnustað og rétt til atvinnuleysisbóta. Þetta eru allt sjálfsögð réttindi launafólks í dag. En öll þessi réttindi, og fjölmörg önnur, eru ávöxtur samstöðu, átaka og baráttu. Af þessu missir sá sem vinnur svart, og allt samfélagið.

Við þurfum að uppræta launaleynd því að þrátt fyrir að - svonefnd launaleynd - hafi verið afnumin með breyttum jafnréttislögum árið 2008 er hún enn við lýði. Samkvæmt lögum er okkur heimilt að skýra frá launum okkar ef við svo kjósum. Við viljum að launaákvarðanir séu réttlátar og gegnsæjar. Launaleynd styður við svarta atvinnustarfsemi og gerir okkur erfiðara að eyða kynbundnum launamuni.

Hvers vegna vilja vinnuveitendur fara leynt með launamálin? Við sem störfum fyrir stéttarfélögin teljum það vera mikilvægan lið í baráttunni gegn svarti atvinnustarfsemi og launamun kynjanna að auka gagnsæið – að tala um launin. Öðruvísi höfum við ekki viðmið. Þannig getum við metið okkur sjálf, borið okkur saman við aðra og verið viss um að við séum metin til jafns við fólk í svipaðri stöðu.

Kynskiptur vinnumarkaður

Í alþjóðlegum samanburði hefur Ísland um árabil verið í fremstu röð þegar kemur að jafnréttismálum. Undanfarin tíu ár höfum við vermt fyrsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins. Þrátt fyrir að Ísland standi öðrum löndum framar þegar kemur að jafnri stöðu kynjanna er enn langt í að jafnrétti verði náð á íslenskum vinnumarkaði.

Kynjamunur hefur alla tíð verið sýnilegur í skólaumhverfinu og námsvali nemenda. Hann hefur einnig viðhaldist á íslenskum vinnumarkaði sem er mjög kynjaskiptur hvað varðar atvinnugreinar. Konur eru áberandi í umönnunarstörfum en karlar í mannvirkjagerð.

Karlastörf hafa notið meiri virðingar, þeim hafa fylgt meiri völd og þau verið betur launuð. Íslenskar og norrænar rannsóknir sýna að kynjaskiptur vinnumarkaður er ein helsta skýring kynbundins launamunar. Til eru að draga úr kynjaskiptingu vinnumarkaðarins og/eða jafna laun milli atvinnugreina þarf meðal annars að kortleggja stöðuna þegar kemur að kynbundnu náms- og starfsvali, starfsþróunarmöguleikum og tækifærum til að sækja aukna þekkingu í starfi.

Námstækifæri einstaklinga eru fjölbreytt. Á síðustu áratugum höfum við aukið við framboð af starfsmenntun, sem er yfirhugtak starfs- og vinnustaðanáms. Sett voru lög um framhaldsfræðslu sem eru þau fimmta grunnstoð menntakerfisins. Lögunum var ætlað að skapa fullorðnum einstaklingum með stutta formlega skólagöngu námstækifæri og auðvelda þeim að hefja nám að nýju.

Rannsóknir sýna að konur eru í miklum meirihluta í stuttu óformlegu starfsnámi sem snýr að umönnun, sem er í takt við kynjaskiptingu á vinnumarkaði. En karlar eru í meirihluta þegar um er að ræða löggiltra iðngreinar og hinn kynjaskipta vinnumarkað.

Á fyrri tíð sóttu konur kvennaskóla, sem nú hafa verið aflagðir, en karlar sóttu fremur í löggilt nám í iðnskólunum. Skólarnir voru út um allt land en staða karla og kvenna var mjög mismunandi að námi loknu. Sú staðreynd vakti þá spurningu hvort sú menningararfleifð sé enn þann dag í dag áhrifavaldur þegar kemur að menntun kvenna og stöðu þeirra í atvinnulífinu. Arfleifð fyrri tíma virðist einkenna starfsmenntunaraðgengi kvenna ennþá í dag, þar sem boðið er upp á stutt námskeið, 60-324 klukkustunda. Einnig er starfsnám á framhaldsskólastigi iðulega það stutt að það nær ekki lögvernduðum réttindum til viðkomandi starfs. Sem rímar við gamla kvennaskólaformið sem var yfirleitt tveggja anna nám sem ekki gaf formleg starfsréttindi. Markmið þess var að styrkja konur til heimilisstarfa, en í dag er verið að styrkja þær til starfa við umönnun í almannaþjónustu.

Í jafnréttisbaráttunni er helsti þröskuldur í samfélagsgerð okkar er kynjamisrétti og rótgrónar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika. Lítil þátttaka kvenna á vinnumarkaði í upphafi 20 aldarinnar þegar karlar réðu launasamsetningunni. Þannig frá fyrstu tíð kvenna á vinnumarkaði hafa verið átök um launasetningu þeirra. Karlar hafa verið með völdin og því settu þeir launaviðmiðin út frá hagsmunum sínum.

Ímynd kvenna á vinnumarkaði er oft ekki opinberuð sem kemur fram hvernig „fjórða valdið“ fjölmiðlar, umgangast konur og þeirra störf. Umfjöllun sem snertir konur þá eru það konur, sem eru að mestu ábyrgar fyrir því að skrifa um konur og að taka viðtöl við þær. Störf kvenna eru ekki í forgangi hjá körlum því reynsla þeirra liggi ekki saman.

Augljós krafa um styttingu vinnuvikunnar

Nú nýverið samþykktu félagsmenn í stærstu verkalýðsfélögunum innan ASÍ á almenna markaðinum „Lífskjarasamning“. Fjölmörg atriði eru í samningum sem geta bætt lífskjör, því hljótum við öll að fagna. Staðan er engu að síður sú að þrátt fyrir að þessir samningar hafi verið samþykktir eru enn stórir hópar með lausa kjarasamninga. Þeirra á meðal eru nær allir opinberir starfsmenn. Það er fólkið sem sinnir almannaþjónustunni. Störfunum þar sem álagið er sífellt að aukast og fleiri og fleiri finna fyrir einkennum kulnunar.

Það er augljós krafa opinberra starfsmanna að við semjum um styttingu vinnuvikunnar í þeim kjarasamningsviðræðum sem nú eru í gangi. Það ætlum við okkur að gera.

Samhliða kjarasamningum þá kynntu stjórnvöld ýmis mál meðal annars lengingu fæðingarorlofs, lækkun skatta á þá tekjulægstu og aukin framlög til húsnæðisfélaga á borð við Bjarg íbúðafélag, sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. En það er sárt til þess að vita að ríkisvaldinu finnst það ekki skylda sína að bæta landsmönnum upp þær skerðingar sem áttu sér stað í velferðarkerfinu eftir hrun.

Ágætu félagar. Að mörgu fleiru er að taka sem ég hefði viljað draga hér fram sem verkalýðshreyfingin hefur verk að vinna að en hér hef ég aðeins sett á oddinn þau mál sem hrópa hæst í dag.

Að lokum óska ég ykkur alls hins besta og þakka áheyrnina.

Arna Jakobína Björnsdóttir, 2. varaformaður BSRB, flutti ávarpið á baráttufundi í Skagafirði 1. maí 2019


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?