Mikill kynjamunur í framhaldsfræðslukerfinu

Skoðun
Arna Jakobína Björnsdóttir, 2. varaformaður BSRB.

Helsti þröskuldur í samfélagsgerð okkar hvað jafnréttisbaráttu varðar er kynjamisrétti og rótgrónar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika. Íslenskur vinnumarkaður er afar kynjaskiptur sem best sést á því að konur eru meirihluti starfsmanna í umönnun en mikill meirihluti þeirra sem starfa við mannvirkjagerð eru karlar.

Ímynd kvenna á vinnumarkaði er oft ekki opinberuð sem kemur fram hvernig „fjórða valdið“, fjölmiðlar, umgangast konur og þeirra störf. Sagt er að eigi umfjöllun sem snertir konur að koma fram þá séu það konur, sem eru að mestu ábyrgar fyrir því að skrifa um konur og að taka viðtöl við þær. Þetta sé vegna þess að konur og þeirra störf séu bara alls ekki í forgangi hjá körlum því reynsla þeirra liggi ekki saman. Karlar væru líka tregari til að segja fréttir af því sem miður fer hjá körlum, svo sem af kynferðislegu ofbeldi eða öðrum ógæfuverkum þeirra.

Fyrsta jafnlaunareglan var samþykkt hér á landi árið 1958 með fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (1951) um að konum og körlum skuli greidd sömu laun fyrir jafn verðmæt störf. Frá því að lög um jafnlaunaráð árið 1973 voru sett hafa öll jafnréttislög kveðið á um launajafnrétti.

Núgildandi jafnréttislög frá 2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kveða á um að allir einstaklingar skuli eiga jafna möguleika óháð kyni. Þar er ekki eingöngu átt við launamun kynjanna heldur einnig að jafna áhrif, bætta stöðu kvenna og aukna möguleika þeirra í samfélaginu. Síðast en ekki síst að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla. Konur hafa einnig átt erfiðara með að fá stjórnunar- og ábyrgðarstörf, sérstaklega eftir því sem fyrirtækin hafa stækkað. 
Óleiðréttur launamunur kynjanna mældist 16 prósent árið 2016 þrátt fyrir að 60 ár séu liðin frá gildistöku fyrstu laga um launajöfnuð kvenna og karla.

Lagaramminn er skýr og þarfnast ekki athugunar en dugar heldur skammt þar sem lögum er ekki fylgt eftir.

Arfleið fyrri tíma enn ráðandi

Af sögu menntunar á Íslandi má ráða hversu ójöfn staða kynjanna hefur í reynd verið. Menntun kvenna þótti ekki sjálfsögð og þurfti lagabreytingu árið 1886 til að stúlkum leyfðist að þreyta próf – ekki sitja skóla heldur eingöngu þreyta próf – frá Lærða skólanum sem fram að því hafði eingöngu þjónað drengjum í námi.

Þegar Háskóli Íslands (HÍ) var stofnaður árið 1911 innritaðist Kristín Ólafsdóttir fyrst kvenna og útskrifaðist sem hún læknir árið 1917. Á stofnári HÍ setti Alþingi einnig lög sem kváðu á um rétt kvenna til að stunda nám í öllum menntastofnunum landsins og jafnframt að þær skyldu eiga möguleika á námsstyrkjum til jafns við karla.

Á fyrri tíð sóttu konur kvennaskóla, sem nú hafa verið aflagðir, en karlar sóttu fremur í löggilt nám í iðnskólunum. Skólarnir voru út um allt land en staða karla og kvenna var mjög mismunandi að námi loknu. Sú staðreynd vakti þá spurningu hvort sú menningararfleifð sé enn þann dag í dag áhrifavaldur þegar kemur að menntun kvenna og stöðu þeirra í atvinnulífinu.

Arfleifð fyrri tíma virðist einkenna starfsmenntunaraðgengi kvenna enn þann dag í dag, þar sem boðið er upp á stutt námskeið, 60-324 klukkustunda. Einnig er starfsnám á framhaldsskólastigi iðulega það stutt að það dugir ekki til að veita lögvernduð réttindi til viðkomandi starfs. Það rímar við gamla kvennaskólaformið sem var yfirleitt tveggja anna nám sem ekki gaf formleg starfsréttindi. Markmið þess var að styrkja konur til heimilisstarfa, en í dag er verið að styrkja þær til starfa við umönnun í almannaþjónustu. Karlar velja, líkt og áður fyrr, frekar að fara í iðnskóla og ljúka námi til lögverndaðra, hefðbundinna karlastarfa sem hafa notið meiri virðingar og eru yfirleitt betur launuð.

Konur í óformlegt starfsnám en karlar í raunfærnimat

Rannsókn mín var um kynjaskiptingu nemendahóps framhaldsfræðslukerfisins sem sér um starfsmenntun er yfirhugtak starfs- og vinnustaðanáms. Og er nýjasta menntakerfið (fimmta menntastoðin) hvernig hún endurspegli vinnumarkaðinn Unnið var með upplýsingar úr gagnaskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA). Til að gera langa sögu stutta þá eru konur í miklum meirihluta í óformlegu starfsnámi en karlar fara frekar í raunfærnimat sem opnar þeim greiða leið í formlegt löggilt iðnnám sem voru staðfestar með lögum árið 1927 og eru alls 60 talsins.

Eða með öðrum orðum, konur voru í miklum meirihluta í stuttu starfsnámi sem snýr að umönnun sem er í takt við kynjaskiptingu á vinnumarkaði.

Ekki er nóg að hvetja konur til náms í greinum sem teljast til hefðbundinna karlastarfa heldur er mikilvægt að skólakerfið allt sé meðvitað um stöðu kynjanna almennt í samfélaginu. Jafnrétti verður ekki náð með örfáum konum sem bjóða kynjakerfinu birginn þar sem þetta er kerfislægt. Jafnvel þó Ísland sé í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði þá þarf að passa sig á þessum skrautfjöðrum því að í reynd er jafnrétti alls ekki komið svo langt innan starfsmenntun kvenna.

Við sem störfum í verkalýðshreyfingunni þurfum að taka málin enn traustari tökum, ekki hefur verið nóg gert. Það eru allir að kalla eftir jafnrétti. Það er þörf á viðhorfsbreytingu, samvinnu og aðgerðum stjórnvalda og stéttarfélaga til að vinna bug á kynbundnu misrétti. Og sporna við neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla og stuðlað að þróun í takt við það sem jafnréttislög kveða á um. Viðfangsefnið er áfram að leita raunverulegra nýrra leiða til að breyta því kynjakerfi í starfsmenntun sem hefur viðhaldið sjálfu sér.

Arna Jakobína Björnsdóttir, 2. varaformaður BSRB.

 

Arna Jakobína hefur verið formaður Kjalar – stéttarfélags í almannaþágu í 27 ár og starfaði sem sjúkraliði um árabil. Hún hefur lokið BA prófi í sálfræði og var að skrifa MA ritgerð í náms- og starfsráðgjöf um kynbundið nám í framhaldsfræðslunni, starfsmenntun fyrr og nú.

Fyrst flutt sem erindi á fundi sem haldinn var í Gamla bíói í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti þann 8. mars 2019.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?