Bíðum ekki lengur

Skoðun
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Nú þegar styttist í að kjaraviðræður BSRB við ríki og sveitarfélög hafi staðið í heilt ár greiða félagsmenn aðildarfélaga bandalagsins atkvæði um verkföll. Atkvæðagreiðslan stendur fram á miðvikudag og verði aðgerðirnar samþykktar munu verkföll hefjast 9. mars.

Það er sannarlega ekki óskastaðan að við þurfum að beita verkfallsvopninu en þolinmæðin er löngu þrotin. Okkar félagsmenn bíða ekki lengur eftir sjálfsögðum kjarabótum. Ef þetta er það sem við þurfum að gera til að knýja viðsemjendur okkar til þess að semja við sína félagsmenn verður svo að vera.

Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar er ein stærsta krafa BSRB og þar þarf að vanda til verka. Okkar kröfur ættu að vera vel aðgengilegar fyrir okkar viðsemjendur og við höfum sýnt mikla þolinmæði. Við höfum unnið mikla og góða heimavinnu með tilraunaverkefnum hjá ríki og Reykjavíkurborg sem sýnt hafa fram á kosti þess að stytta vinnuvikuna. Þrátt fyrir þennan góða undirbúning hafa viðsemjendur okkar dregið viðræðurnar endalaust og má segja að umræðan hafi ekki ratað á rétta braut fyrr en í byrjun þessa árs.

Enn á eftir að ná niðurstöðu í mörg risavaxin mál. Þar má nefna launahækkanir sem okkar félagsmenn hafa beðið allt of lengi eftir, jöfnun launa milli markaða og launaþróunartryggingu. Við það bætist ávinnsla orlofs sem er til umræðu vegna lagabreytinga en ekki að kröfu launafólks. Þá bættist við sérmál í viðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga sem enginn átt von á þar sem sveitarfélögin virðast hafa einsett sér að mismuna starfsfólki sínu þegar kemur að launakjörum.

Við látum ekki bjóða okkur upp á frekari drátt á kjarabótum félagsmanna aðildarfélaga BSRB. Þess vegna hvetjum við félagsmenn til að sýna samstöðu, greiða atkvæði um verkfallsaðgerðir og knýja þannig viðsemjendur okkar til samninga. Atkvæðagreiðslur eru á hendi hvers félags og við hvetjum félagsmenn til að kynna sér málið og kjósa. Kjarasamninga strax!

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?