Hverjir bera ábyrgð á ófremdarástandi?

Skoðun

Í kjölfar lagasetningar á kjaradeilu flugumferðarstjóra og Isavia hljóta stjórnvöld að bregðast við telji þau það ógna almannahagsmunum ef sú stétt vinnur ekki yfirvinnu. Þau þurfa að kanna hver ber ábyrgð á því ófremdarástandi og hvernig hægt er að bæta þar úr án tafar.

„Þetta er einkennileg staða sem við erum komin í,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. Alþingi setti fyrir helgi lög sem banna Félagi íslenskra flugumferðarstjóra að grípa til hvers kyns verkfallsaðgerða til að leggja áherslu á kröfur sínar í kjaradeilu við Isavia. Einu aðgerðirnar sem flugumferðarstjórarnir höfðu beitt var yfirvinnubann og þjálfunarbann.

Stjórnvöld tryggi hagsmuni almennings
„Nú hlýtur ráðherra samgöngumála að vera farinn að skoða hvernig hægt er að tryggja að almannahagsmunum verði ekki ógnað í framtíðinni. Það er einhver ástæða fyrir því að ástandið er orðið þannig að þessi fámenna stétt verður að vinna yfirvinnu ef ekki á illa að fara,“ segir Elín Björg.

Stjórnvöld og meirihluti Alþingis mátu það svo að þessar aðgerðir flugumferðarstjóra, að vinna ekki yfirvinnu, ógnuðu almannahagsmunum. Það er augljóslega grafalvarleg niðurstaða ef sú staðreynd að ein starfsstétt vinni ekki yfirvinnu ógnar hagsmunum landsmanna allra að mati BSRB.

Augljóst er að stjórnvöld hljóti að halda áfram með málið, ekki dugar að setja lög á aðgerðir flugumferðarstjóra og halda að þar með sé vandinn leystur.

Ábyrgðin hjá Isavia
„Það er augljóst að það ber einhver ábyrgð á þessu slæma ástandi. Það eru einhverjar ákvarðanir sem voru teknar, eða hefði átt að taka, sem verða þess valdandi að það eru of fáir flugumferðarstjórar starfandi. Þar hlýtur eini vinnuveitandi flugumferðarstjóra á Íslandi, Isavia, að bera höfuðábyrgð,“ segir Elín Björg.

„Ef stjórnvöldum er einhver alvara með því þegar þau segja að það ógni almannahagsmunum vinni flugumferðarstjórar ekki yfirvinnu hljóta þau að finna leiðir til að leysa úr þeirri stöðu með einhverjum hætti strax, til að tryggja hagsmuni almennings.“

Elín skrifaði grein í Fréttablaðiðið í dag um kjaradeiluna og viðbrögð stjórnvalda. Hægt er að lesa grein Elínar á Vísi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?