Nýjar sögur á nýju ári

Skoðun
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB.

Sögur hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda og þær fylgja okkur sjálfum út ævina. Við segjum sögur til að reyna að skilja heiminn, að koma reglu á óreiðuna og búa til tengingar. Og við segjum sögur, til að auka samkennd og skilning gagnvart öðru fólki og þeirra aðstæðum.

Stundum eru sögurnar sem við segjum of einfaldar og þessar sögur geta ýtt undir fordóma og stuðlað að sundrung. Það hefur alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið ef þesskonar sögur ná undirtökum í umræðunni. Þetta er ekki nýr sannleikur, eins og hagfræðingurinn Mariana Mazzucato hefur bent á. Sögurnar sem við segjum um hvernig verðmætin eru sköpuð eru að stórum hluta ekkert annað en mýtur, eins og hún færir rök fyrir í skrifum sínum.

Þeir sem segja sögurnar stjórna heiminum. Á nýju ári þurfum við að endurhugsa hvaðan hinn raunverulegi auður kemur og hvernig við sem samfélag eigum að skipta honum. Saman þurfum við að semja nýja sögu fyrir framtíðina.

Gamlar tuggur sem viðhalda ójöfnuði

Það hefur ekki verið neinn skortur á sögum sem sagðar hafa verið í heimsfaraldrinum. Þau sem telja að sérhagsmunir eigi að ganga framar sameiginlegum hagsmunum landsmanna hafa farið mikinn til að tryggja sína stöðu og segja einfaldar sögur, sögur sem eiga við engin rök að styðjast.

Ein af lífseigari sögunum er að einkavæðing og útvistun verkefna í heilbrigðisþjónustu muni leysa þann vanda sem heilbrigðiskerfið okkar stendur frammi fyrir. Í þeim sögum hefur ekkert tillit verið tekið til þess að kerfið hefur verið verulega vanfjármagnað síðustu ár. Ekki er minnst á stóraukið álag vegna heimsfaraldurins eða rannsóknir sem hafa sýnt neikvæð áhrif arðsemiskröfu á þjónustu, laun og starfsaðstæður fólksins sem veitir þjónustuna.

Nú í aðdraganda kjarasamninga er okkur enn einu sinni sagt að atvinnurekendur geti ekki staðið undir launahækkunum. Það kann að hljóma kunnuglega enda er þetta sama gamla tuggan sem við heyrum úr þeirri átt í hvert einasta skipti sem kemur að því að endurnýja kjarasamninga, algjörlega óháð því hvernig árar. Það er útaf fyrir sig merkilegt að enn sé tekið mark á því enda sýnir reynslan okkur að síðastliðin 30 ár hafa kjarasamningar bæði aukið velsæld og stuðlað að stöðugleika.

Enn önnur sagan tengist mýtunni um að stjórnvöld eigi að hafa sem minnst afskipti af markaðnum og raunar lífi fólks almennt. Það er í raun óskiljanlegt að þessari sögu hafi ekki verið kastað í sjóinn þegar bankarnir hrundu árið 2008. Fyrir þau sem ekki lærðu af reynslunni í hruninu má nefna önnur dæmi þar sem stjórnvöld verða að vera í aðalhlutverki, svo sem til að bregðast við áskorunum tengdum heimsfaraldrinum, hamfarahlýnun, tæknibreytingum, nýsköpun og auknum ójöfnuði. Markaðurinn er ekki töfralausn á öllum vanda eins og flest ættu að vera farin að sjá.

Nú hefur sprottið upp ný saga sem hefur verið endurtekin undanfarnar vikur og mánuði með mismunandi tilbrigðum. Þessi nýja saga gengur út á að alltof mörg starfi hjá hinu opinbera og hversu ótrúlega há laun þetta fólk fái. Eins og með aðrar sögur úr svipaðri átt sýna allar tölur að þetta er uppspuni. Fjöldi opinberra starfsmanna hefur haldist í hendur við fjölgun þjóðarinnar undanfarin ár og laun eru hæst á almennum vinnumarkaði en ekki opinberum.

Sögur hafa áhrif. Líka þær sem eru rangar, eins og dæmin hér að ofan sýna. Sögur sem þessar hafa til dæmis leitt til þess að skattar hafa verið lækkaðir á þá ríkustu á sama tíma og gerðar eru aðhalds- og niðurskurðarkröfur til mikilvægra stofnana í heilbrigðis- og félagsþjónustu og menntakerfinu með augljósum neikvæðum áhrifum á þjónustuna og þau sem þar starfa. Þetta eru stofnanir sem hafa verið í auga stormsins í faraldrinum en samt er þörfum þeirra ekki sýndur skilningur.

Sögur sem þessar ýta einnig undir það viðhorf að ekki megi jafna laun milli markaða eða leiðrétta laun starfstétta sem hafa búið við áralangt misrétti vegna þess að rangt var metið í upphafi. Laun kvennastétta í dag byggja á kerfisbundnu og sögulegu misrétti. Þegar atvinnuþátttaka kvenna jókst á síðari helming 20. aldarinnar var það oft í láglauna- og þjónustustörfum sem áður var sinnt innan veggja heimilisins, og fólk sagði sér að þessi störf væru lítils virði.

Allar þessar sögur, þessar gömlu tuggur, ýta undir það viðhorf að hver einstaklingur beri sjálfur ábyrgð á því að ná endum saman og það sé engum um að kenna nema þeim sjálfum ef ekki er til peningur fyrir mat, þaki yfir höfuðið eða kuldaskóm á barnið. Þetta er rangt. Það er á ábyrgð samfélagsins að tryggja velferð og það ætti að vera nýja sagan sem við semjum saman á nýju ári.

Semjum saman nýja sögu fyrir framtíðina

Eins og oft gerist þegar á móti blæs höfum við öll hugsað mikið um hvað það er sem skiptir okkur raunverulegu máli. Ef taka á mið af megináherslum kjósenda í aðdraganda þingkosninga á árinu sem nú er að líða er heilsan okkur efst í huga. Öll viljum við eiga möguleika á að sækja okkur heilbrigðisþjónustu óháð því hvar við búum eða hvað við höfum í laun. Einnig er skýr krafa kjósenda um jöfnuð og að fólk nái endum saman, enda sýnir fjöldi rannsókna að Íslendingar telja að ójöfnuður í samfélaginu sé mun meiri en hægt er að búa við.

Sögum um kvíða og streitu sem herjar á fólk vegna óvissunnar, sóttkvíar og veikinda sem fylgja útbreiðslu faraldursins og of miklu álagi í vinnu eða heima fyrir fer fjölgandi. Það hefur líklega aldrei verið jafnljóst að það er forgangsverkefni að stuðla að því að öllum líði vel og búi við nægilegan stuðning. Þar skipta fyrirbyggjandi aðgerðir mestu máli. Við verðum að ráðast í slíkar aðgerðir á vinnustöðum, í skólakerfinu og í velferðarkerfinu.

Sagan um styttingu vinnuvikunnar á Íslandi vakti heimsathygli hér á árinu. Við sem hér búum vitum að hún er enn verk í vinnslu á sumum vinnustöðum en það er ljóst að styttingin hefur vakið athygli og vonir um breytingar á vinnumarkaði til góðs fyrir launafólk. Stytting vinnuvikunnar er liður í að skapa vinnumarkað framtíðarinnar með nýrri nálgun á hvernig við högum okkar daglega lífi, hversu miklum tíma við verjum í vinnu og hversu mikinn tíma við höfum fyrir okkur sjálf og fjölskyldu okkar.

Semjum saman nýja sögu fyrir framtíðina á nýju ári. Sögu sem snýst um fólkið í landinu. Það er okkar að spinna söguþráðinn með hagsmuni allra að leiðarljósi. Krafan um velsæld er grundvallarkrafa sem skilar auknum framförum og velferð fyrir okkur öll. Hvernig við deilum gæðunum hverju sinni, hvort heldur sem er í gegnum kjarasamninga eða stuðning stjórnvalda, á að snúast um að fólk nái endum saman, eigi öruggt heimili og búi við lífsskilyrði og starfsumhverfi sem tryggir þeim og fjölskyldum þeirra góða heilsu og gott líf.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB

Greinin birtist fyrst á vef Kjarnans.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?