Þú hefur áhrif á styttingu vinnuvikunnar á þínum vinnustað

Skoðun
Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.

Í síðustu kjarasamningum náðum við hjá Sameyki stéttarfélag og önnur aðildarfélög BSRB þeim langþráða áfanga að stytta vinnuvikuna niður í 36 klst. í dagvinnu og allt að 32 stundum í vaktavinnu hjá þeim sem vinna erfiðustu vaktirnar. Þessum áfanga ber sannarlega að fagna og það höfum við gert síðan með því að upplýsa félagsfólk um hvernig megi útfæra þessa kjarabót sem best.

Stytting vinnuvikunnar er fagnaðarefni á hverjum vinnustað og við sem samfélag ættum að nálgast hana sem slíka líka. Samfélagið okkar mun breytast, til hins betra. Það verður bæði fjölskylduvænna og streituminna, sem er löngu tímabær breyting. Við sjáum það skýrt á niðurstöðum tilraunaverkefna bæði ríkis og borgar, þar sem vinnutíminn var styttur. Þar kom berlega í ljós, að vel er hægt samræma vinnu og einkalíf með breyttu skipulagi og jafnframt halda góðu þjónustustigi. Meira að segja veikindadögum fækkaði og lífsgæði fólks jukust.

Þann 1. janúar 2021 munu breytingarnar taka gildi í síðasta lagi. Því er mikilvægt að þeir vinnustaðir sem enn eiga eftir að útfæra styttinguna láti hendur standa fram úr ermum og finni leiðir sem henta. Það er auðvitað áskorun að ætla að breyta þeirri 40 stunda vinnuviku sem við höfum átt að venjast undanfarin 50 ár og mikilvægt að gera það í góðri samvinnu.

Það er verk hvers og eins vinnustaðar að finna þessari mikilvægu breytingu farveg og til þess að auðvelda ferlið og tryggja sem bestan árangur, er mynduð svokölluð vinnutímanefnd sem skipuð er fulltrúum starfsfólks og stjórnenda á hverjum vinnustað fyrir sig. Nefndin undirbýr breytinguna, endurskipulagningu vikunnar og leiðir samtalið á vinnustaðnum.

Þessi vinna er umfram annað samstarfsverkefni, þar sem starfsfólk hefur áhrif og rödd. Samtalið þarf að velta upp nauðsynlegum spurningum eins og til dæmis hvernig bæta megi skipulag vinnunnar, verklag, samvinnu, verkefnadreifingu, stjórnun og vinnubúnað, sem og hvernig megi nýta tæknina betur til að stuðla að styttingu vikunnar. Samtalið felur einnig í sér að leita leiða til að tryggja að starfsfólk geti veitt jafn góða þjónustu og fyrir breytingar.

Það er sumsé í höndum hvers vinnustaðar að finna út hvernig fyrirkomulag styttingarinnar á að vera. Á hún að vera tekin út daglega eða vikulega? Hvaða dagar henta best og klukkan hvað?

Loks eru tillögur kynntar fyrir starfsfólki og svo kosið.

Þetta er eitt af þessum skemmtilegu verkefnum sem stjórnendur og starfsfólk fá að vinna að saman og skipta okkur öll raunverulegu máli. Við styttum vinnuvikuna úr 40 stundum í 36 – í sameiningu.

Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu

Greinin birtist fyrst á Vísi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?