Brugðist hart við #metoo byltingunni

BSRB hefur gripið til ýmiskonar aðgerða í kjölfar #metoo byltingarinnar.

BSRB hefur, eins og önnur heildarsamtök á vinnumarkaði, brugðist hart við #metoo byltingunni. Í þeirri vinnu hefur verið byggt á góðum grunni því jafnréttismál eru einn af hornsteinum stefnu bandalagsins.

Mikil áhersla hefur verið lögð á allir atvinnurekendur innleiði hjá sér vinnubrögð í samræmi við lög og reglur. Núgildandi reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum leggur ríkar skyldur á herðar atvinnurekenda að fyrirbyggja og stöðva áreitni og ofbeldi á vinnumarkaði. Samkvæmt henni ber atvinnurekendum skylda til að gera skriflegt áhættumat og áætlun um forvarnir til að koma í veg fyrir slíka hegðun og þær aðgerðir sem grípa skuli til ef þetta hátterni á sér stað eða hefur átt sér stað.

Því miður eru enn fjölmargir atvinnurekendur sem ekki uppfylla þessa skyldu. Það er ein af frumforsendum þess að uppræta megi þennan vanda á vinnustöðum að unnið sé eftir reglugerðinni. Í lok nóvember 2017 sendu BSRB ásamt ASÍ, BHM og KÍ frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem kom fram að bandalögin standi með þolendum og skyldur atvinnurekenda í þessum efnum áréttaðar.

Vinna bandalagsins vegna #metoo snýr líka að innra starfi bandalagsins og aðildarfélaga þess. Fjallað hefur verið um #metoo byltinguna á þeim fundum formannaráðs BSRB sem haldnir hafa verið síðan byltingin hófst. Formannaráðið sendi frá sér ályktun 19. mars 2018 þar sem skorað er á atvinnurekendur að taka næstu skref í tengslum við #metoo byltinguna. Þar segir meðal annars að góð stjórnun og markviss samþætting jafnréttissjónarmiða með sérstakri áherslu á að uppræta valdamisræmi í hvers kyns ákvörðunartöku er lykillinn að því að aldrei þurfi nokkur að segja aftur #metoo. Formannaráð BSRB skoraði á atvinnurekendur að taka næsta skref með athugun á vinnumenningu og greiningu á völdum og valdastöðu.

Bandalagið hefur jafnframt aukið fræðslu um jafnrétti á vinnumarkaði, áreitni og annað ofbeldi á vinnustöðum, til dæmis með erindum hjá þeim aðildarfélögum sem óskað hafa eftir því og námskeiði í forystufræðslu Félagsmálaskóla Alþýðu. Þá hefur fræðslubæklingur um áreitni og ofbeldi verið þýddur á ensku  og pólsku. Formaður BSRB flutti erindi á fundi Vinnueftirlitsins, Áreitni á vinnustöðum – NEI TAKK! þar sem undirrituð var viljayfirlýsing um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Þá hafa fulltrúar BSRB verið í viðtölum við fjölmiðla vegna umræðunnar bæði í fréttum og dægurmálaþáttum.

Þjóðfundur mótaði næstu skref

Heildarsamtökin fjögur ásamt Kvenréttindafélagi Íslands hafa jafnframt unnið mikið saman vegna #metoo umræðunnar bæði vegna innra starfs samtakanna sem og vegna hagsmunagæslu launafólks.

Dæmi um það samstarf er þjóðfundur þar sem #metoo konum var boðið til samtals um næstu skref byltingarinnar 10. febrúar 2018. Fundurinn hófst á innleggi Þórunnar Sveinbjarnadóttur formanns BHM, undir yfirskriftinni Loksins! og fræðsluerindi Sonju Ýrar Þorbergsdóttur, lögfræðings hjá BSRB, undir yfirskriftinni „Hver er þinn réttur?“ Þá tóku við borðumræður með þjóðfundarsniði undir stjórn Eyrúnar B. Valsdóttur, deildarstjóra fræðsludeildar ASÍ þar sem málin voru rædd í smærri hópum til að tryggja að allir hefðu tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að í umræðunni.

Fundurinn mótaði tillögur að næstu skrefum og aðgerðum stéttarfélaga og heildarsamtaka launafólks vegna #metoo byltingarinnar í innra starfi þeirra sem og áherslum og samstarfi við atvinnurekendur, stjórnvöld og samfélagið allt. Hægt er að kynna sér niðurstöður fundarins í skýrslu sem tekin var saman að honum loknum.

Nýlega skipaði félags- og jafnréttismálaráðherra tvo starfshópa sem fulltrúi BSRB ásamt öðrum aðilum vinnumarkaðarins, Vinnueftirlits, Jafnréttisstofu og Félagi kvenna í atvinnulífinu eiga sæti í. Verkefni annars hópsins er að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði og aðgerðir atvinnurekenda í tengslum við slík mál á vinnustöðum og gert er ráð fyrir að hópurinn standi fyrir þríþættri rannsókn í þessum tilgangi. Hins vegar er um að ræða aðgerðarhóp sem ætlað er að vinna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Byltingunni er ekki lokið

BSRB hefur brugðist við #metoo byltingunni með ýmsum hætti, en byltingunni er ekki lokið. Bandalagið mun áfram berjast fyrir því að stöðva áreitni og ofbeldi á vinnustöðum með fulltingi öflugra aðildarfélaga, trúnaðarmanna þeirra og annarra félagsmanna.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?