Ekki jafnræði í þjónustu sveitarfélaga við börn

Ekki verður séð að jafnræði ríki um þjónustu við börn að loknu fæðingarorlofi. Mikill munur er á þjónustu milli sveitarfélaga.

Mikill munur er á þeim dagvistunarúrræðum sem foreldrar njóta milli sveitarfélaga og ekki ríkir jafnræði í þjónustu við börn að loknu fæðingarorlofi. Könnun BSRB sýnir að börn á Íslandi eru að jafnaði um 20 mánaða gömul þegar þau komast inn á leikskóla en samanlagt fæðingarorlof beggja foreldra er níu mánuðir.

Nefnd BSRB um fjölskylduvænna samfélag aflaði upplýsinga um stöðu dagvistunarmála að loknu fæðingarorlofi hjá sveitarfélögunum í landinu og hefur nú gefið út skýrslu með helstu niðurstöðum. Markmiðið var að varpa ljósi á hvaða stuðning hið opinbera veitir, enda ítrekað verið bent á þau vandamál sem leiða af því bili sem er á milli fæðingarorlofs foreldra og þess aldurs þegar börnum er tryggt leikskólapláss.

Almennt nýta foreldrar sér dagforeldrakerfið til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, þar sem það er í boði. Það byggir á framboði einkaaðila og sveitarfélögunum ber hvorki skylda til að tryggja framboð dagforeldra né til að niðurgreiða þjónustu þeirra. Rannsókn BSRB sýnir að dagforeldrar eru aðeins starfandi í 21 af 74 sveitarfélögum í landinu, en í þeim búa um 88% íbúa landsins.

Engin lög um hvenær börn fá dagvistun

Skýrsla BSRB um dagvistunarúrræði

Sveitarfélögunum í landinu er í sjálfsvald sett við hvaða aldur börn eiga rétt á dagvistunarúrræðum. Ísland sker sig frá öðrum Norðurlöndum þar sem lög segja til um við hvaða aldur börnum skuli boðið upp á dagvistun. Sá réttur helst í hendur við rétt foreldra til fæðingarorlofs þannig að þegar orlofinu sleppir eiga börn lögbundinn rétt á dagvistun.

Könnun BSRB sýnir að um helmingur landsmanna býr í sveitarfélögum þar sem inntökualdur barna á leikskóla er 24 mánaða. Tæpur fimmtungur, 18,4%, býr í sveitarfélögum sem tryggja leikskólavist fyrir börn 12 mánaða eða yngri. Álykta má út frá svörum sveitarfélagana að flest stefni þau á að bjóða upp á pláss á leikskóla frá 12 mánaða aldri. Ljóst er að þau eru komin misjafnlega langt í áttina að því markmiði enda um átta af hverjum tíu landsmönnum búsettir í sveitarfélögum þar sem inntökualdurinn er hærri.

Samkvæmt tölum frá Hagstofunni má áætla að börn komist að meðaltali í einhverja dagvistun, til dæmis leikskóla eða til dagforeldra, á bilinu 12 til 15 mánaða. Fæðingarorlof beggja foreldra er samanlagt níu mánuðir. Það bil sem flestir foreldrar þurfa að brúa með einhverjum hætti er því að jafnaði þrír til sex mánuðir.

Tölur Hagstofunnar sýna jafnframt að langflest börn yngri en 12 mánaða eru hvorki hjá dagforeldrum né á leikskólum. Það sama á við tæplega fjórðung eins árs barna. Það bendir til þess að þau séu heima hjá foreldrum sínum eða ættingjum. Rannsóknir sýna að mæður axla almennt mestan þunga af því að brúa þetta bil.

Tryggir ekki jafna möguleika á vinnumarkaði

Núverandi fyrirkomulag tryggir að litlu eða engu leyti að báðir foreldrar fái jafna möguleika til þátttöku á vinnumarkaði að loknu fæðingarorlofi. Ekki verður séð að jafnræði ríki um þjónustu við börn að loknu fæðingarorlofi.

BSRB leggur áherslu á að farið verði að tillögum starfshóps um framtíðarskipan í fæðingarorlofsmálum, sem skilaði niðurstöðu sinni til félagsmálaráðherra fyrir rúmu ári. Lengja verður fæðingarorlofið í 12 mánuði og tryggja með lögum rétt barna til leikskólavistar strax að þeim tíma liðnum.

Skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði má lesa hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?