Hver á að brúa umönnunarbilið?

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Flestir sem þekkja fólk sem á ung börn hafa heyrt sögurnar. Það gengur ekkert að fá inni á leikskóla eftir fæðingarorlof. Það eru engin dagforeldri í bæjarfélaginu en mögulega kemst barnið inn hjá dagforeldri í öðru bæjarfélagi eftir hálft ár. Mamman ætlar að lengja orlofið þar sem barnið kemst ekki í dagvistun. Hljómar þetta kunnuglega?

Þetta er því miður raunveruleikinn fyrir allt of marga foreldra. Fæðingarorlofið eru níu mánuðir samanlagt fyrir báða foreldra. Að því loknu eru foreldrarnir komnir í villta vestrið, þar sem frumskógarlögmál virðast ríkja. Sumir eru heppnir og koma sínu barni að hjá dagforeldri. Aðrir búa við þá þjónustu að bæjarfélagið sem þeir búa í tekur við börnum á leikskóla frá 12 mánaða aldri og þurfa bara að brúa stutt bil frá því fæðingarorlofi lýkur.

En aðrir eru ekki jafn heppnir. Nýlegar fréttir um unga foreldra sem sáu sér þann kost vænstan að flytja frá Akureyri þar sem barnið komst ekki að hjá dagforeldrum færa heim sanninn um það. Aðrir foreldrar standa frammi fyrir miklu tekjutapi þar sem annað foreldrið þarf að lengja fæðingarorlofið og í mörgum tilvikum vera heima með barnið svo mánuðum skiptir þar sem engin dagvistunarúrræði eru í boði.

Þetta er falinn vandi sem verður til þess að annað foreldrið, í yfirgnæfandi fjölda tilvika móðirin, er mun lengur frá vinnumarkaði en nauðsynlegt hefði verið.

Um 11 mánaða umönnunarbil

BSRB gerði nýverið úttekt á dagvistunarmálum í sveitarfélögum landsins. Sú úttekt leiddi í ljós að mikill munur er á þeirri þjónustu sem stendur foreldrum til boða að loknu fæðingarorlofi. Staðreyndin er sú að börn eru að jafnaði um 20 mánaða gömul þegar þau komast inn á leikskóla. Þar sem fæðingarorlofið er aðeins níu mánuðir er staðan sú að foreldrar þurfa að meðaltali að brúa um 11 mánaða umönnunarbil milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Margir eru svo heppnir að börn þeirra komast tiltölulega fljótt að hjá dagforeldrum. En það eru engar kvaðir á sveitarfélögum að þjónusta unga foreldra. Dagforeldrar starfa sjálfstætt og þá er ekki að finna í nema 21 af 74 sveitarfélögum í landinu, en í sveitarfélögunum 21 búa um 88% íbúa landsins. Það er hins vegar önnur saga hvort fjöldi dagforeldra sé í samræmi við eftirspurn foreldra. Úttekt BSRB sýnir að sum sveitarfélög velta því lítið sem ekkert fyrir sér hvernig og hvort foreldrar nái að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Önnur sveitarfélög reyna að tryggja framboð dagforeldra en segja það erfitt.

Auðvelt að leysa vandann

Vandinn er öllum ljós en einhverra hluta vegna virðist standa á því að hann sé leystur. Einstök sveitarfélög hafa þó tekið við sér og bjóða upp á leikskólavist frá 12 mánaða aldri. Eins og fram kemur í úttekt BSRB býr tæplega fimmtungur landsmanna, um 18,4%, í sveitarfélögum sem tryggja leikskólavist fyrir börn 12 mánaða eða yngri.

Önnur sveitarfélög hafa lýst vilja til að taka inn yngri börn á leikskóla en ekki stigið skrefið. Því er augljóst að ekki ríkir jafnræði í þjónustu við börn að loknu fæðingarorlofi.

Hér þarf Alþingi að stíga inn í og taka tvö afgerandi skref í þágu jafnréttis á vinnumarkaði til að eyða umönnunarbilinu.

  1. Lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði, eins og starfshópur um framtíðarskipan í fæðingarorlofsmálum gerði að tillögu sinni til félagsmálaráðherra.
  2. Tryggja óskoraðan rétt barna til leikskólavistar við 12 mánaða aldur, strax að loknu fæðingarorlofi.

Þetta eru hvorki flókin skref né óyfirstíganleg enda hafa þegar sambærileg skref þegar verið tekin á hinum Norðurlöndunum þar sem er tryggð samfella milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrræðis.

Síðasta heildstæða umræðan um umönnunarvanda átti sér stað upp úr 1990. Um það leyti breyttist verulega þjónusta gagnvart barnafjölskyldum og nær öllum börnum var gefinn kostur á leikskólavist frá tveggja ára aldri. Flestir telja þetta vera eina af meginástæðum aukinnar atvinnuþátttöku kvenna og þess að þar stöndum við fremst í alþjóðlegum samanburði. Þess vegna er stórmerkilegt að nærri 20 árum síðar hafi þetta kerfi ekki tekið neinum breytingum, ekkert þroskast, í þágu sama markmiðs. Og það þrátt fyrir að lengi hafi verið ljóst að áhrif þessa fyrirkomulags séu þau að konur hverfi mun lengur af vinnumarkaði en karlar með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á stöðu þeirra á vinnumarkaði.

Jöfnum hlut kynjanna á vinnumarkaði

Vandamálið er ekki bara foreldranna sem þurfa að brúa bilið og sætta sig við enn meira tekjutap en ella vegna fjarvista frá vinnu. Við vitum að fæðingartíðni hér á landi hefur minnkað mikið undanfarið enda ekki allir sem hafa það fjárhagslega svigrúm sem þarf til að eignast börn, eða bæta við fleiri börnum.

Það er vandamál fyrir samfélagið í heild að foreldrar þurfi að brúa þetta umönnunarbil. Rannsóknir sýna að það eru nær eingöngu mæðurnar sem taka á sig vinnutap þegar börn þeirra komast ekki að hjá dagforeldrum eða á leikskólum að loknu fæðingarorlofi.

Raunar sýna tölur frá Fæðingarorlofssjóði að feður taka síður fæðingarorlof nú en fyrir hrun, og þeir sem taka orlof eru styttra frá vinnu en áður. Með stöðugum breytingum á fæðingarorlofskerfinu í kjölfar hrunsins voru tekin fjölmörg skref aftur á bak hvað þetta varðar og ekki verður séð að smávægilegar hækkanir á þakinu yfir margra ára tímabil muni færa okkur á sama stað og áður og þaðan af síður að það skili okkur jafnri fæðingarorlofstöku feðra og mæðra. Þegar sem flestir feður tóku fæðingarorlof og lengsta orlofið árið 2008 var það nefnilega raunin að feður tóku um þrjá mánuði en mæður tóku 6 mánuði og eftir þann tíma tók við að brúa umönnunarbilið. Svo þrátt fyrir að taka fæðingarorlofs hafi verið jafnari áður meðal kynjanna hefur hún aldrei verið fullkomlega jöfn.

Þessi kynbundni munur á fjarveru frá störfum vegna barneigna bitnar á mæðrunum, sem fá lægri laun á vinnumarkaði, eru álitnar síðri kostur en karlar þegar ráðið er í stöður og eiga minni möguleika á framgangi í starfi og stjórnunar- og ábyrgðarstöðum en karlkyns samstarfsmenn. Þess vegna er það samfélagslegt verkefni að breyta fyrirkomulagi sem nú tryggir að litlu eða engu leyti að báðir foreldrar fái jafna möguleika til þátttöku á vinnumarkaði að loknu fæðingarorlofi.

Rjúfum þögnina og grípum til aðgerða

Alþjóðlegar mælingar sem raða Íslandi í efsta sæti varðandi jafnrétti kynjanna mega ekki verða þess valdandi að við sofum á verðinum og teljum stöðuna svo góða að ekki sé þörf á neinum breytingum. Það er löngu tímabært að stjórnvöld rjúfi rúmlega tveggja áratuga þögn um þennan umönnunarvanda og grípi til aðgerða með því að lengja fæðingarorlofið og eyða umönnunarbilinu.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?