Lágt hlutfall opinberra starfsmanna í raunfærnimat

Hlutfallslega færri starfsmenn hjá hinu opinbera fara í raunfærnimat en gengur og gerist á almenna vinnumarkaðinum sagði Haukur Harðarson frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Ætli stéttarfélög sér að hafa eitthvað að segja um þróun raunfærnimats verða þau að vita hvað þau vilja, sagði Haukur Harðarson frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins á menntadegi BSRB.

Aðeins um 7,1 prósent af þeim 4.400 sem lokið hafa raunfærnimati á síðustu tíu árum starfa hjá hinu opinbera þrátt fyrir að um fimmtungur vinnuaflsins starfi hjá ríki og sveitarfélögum. Haukur sagði ekki skýrt hvað valdi þessu en velti upp möguleikum á borð við skort á stefnu hjá stéttarfélögum, launakerfi opinberra starfsmanna og samsetningu hópsins.

Fjallað var um raunfærnimat, fagháskólanám og áherslur BSRB og aðildarfélaga bandalagsins á Menntadegi BSRB, sem haldinn var þriðjudaginn 20. mars 2018. Nánar verður sagt frá umræðum um raunfærnimat á vef BSRB síðar.

Í erindi sínu vitnaði Haukur í könnun sem gerð var meðal þeirra sem farið hafa í raunfærnimat. Könnunin sýndi að um 62 prósent þeirra sem fóru í raunfærnimat höfðu þegar farið í nám og 14 prósent til viðbótar ætluðu sér að fara í nám. Meðalaldur þeirra sem fara í raunfærnimat eru um 40 ár.

Þá sýndu niðurstöðurnar að af þeim sem höfðu farið í nám í kjölfar raunfærnimats sögðu níu af hverjum tíu að þeim gengi vel í náminu. Aðeins um einn af hverjum 100 sagði að sér gengi illa í náminu.

Meta reynslu af vinnumarkaði

Haukur sagði að markmiðið með raunfærnimati sé að veita fólki á vinnumarkaði sem ekki hafi lokið prófi frá framhaldsskóla tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði.

Raunfærnimatið gengur út á að meta þá reynslu sem einstaklingar hafa aflað sér á vinnumarkaði til eininga í skólakerfinu. Haukur sagði góðan jarðveg fyrir það hér á landi þar sem stór hópur á vinnumarkaði hafi byrjað á framhaldsnámi en ekki lokið því. Sá hópur hafi í kjölfarið aflað sér reynslu og þekkingar í gegnum störf sín.

Tilgangurinn er að gera hæfni og færni sýnilega með því að meta hana með aðferðafræði sem tekur mið af þörfum einstaklingsins. Haukur sagði það algerlega skýrt að ekki væri verið að veita neinn afslátt af kröfum, þær séu eins og í formlega skólakerfinu.

Aukið sjálfsálit og sterkari staða

Haukur sagði ávinninginn af raunfærnimatinu skýran. Það sem skipti máli fyrir einstaklingana sé til að mynda bætt sjálfsálit, sterkari staða á vinnumarkaði, aukin lífsgæði og möguleikar á þróun í starfi. Fyrirtækin njóti einnig góðs af þar sem þau fáu hæfara starfsfólk og nái frekar að halda í það. Þjóðfélagið í heild fái svo færara vinnuafl og lengri starfsæfi.

Hér má sjá glærur Hauks frá menntadegi BSRB.

Nánar er fjallað um tilgang og markmið með raunfærnimatinu á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, auk þess sem myndband þar sem sagt er frá raunfærnimatinu er hér að neðan.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?