Skýrsla um fáttækt barna: Brúið umönnunarbilið

Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða.

Ísland stendur hinum Norðurlöndunum að baki hvað varðar útgjöld til barnabóta, fæðingar- og foreldraorlofs og til daggæslu samkvæmt nýrri skýrslu um lífskjör og fáttækt barna á Íslandi. Þar er meðal annars lagt til að bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar verði brúað.

Skýrslan var unnin fyrir Velferðarvaktina, sem stofnuð var að frumkvæði stjórnvalda árið 2009 til að fylgjast með afleiðingum efnahagshrunsins á heimilin í landinu. Vaktin hefur það verkefni að greina stöðuna og veita stjórnvöldum óháð álit. Að Velferðarvaktinni standa aðilar vinnumarkaðarins, þar með talið BSRB, ráðuneyti, ríkisstofnanir og sveitarfélögin.

Í skýrslunni eru settar fram fjórar tillögur sem stjórnvöld ættu að hrinda í framkvæmd sem fyrst. Í fyrsta lagi þarf að eyða umönnunarbilinu, bilinu milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða. Þá þarf að auka tilfærslur til einstæðra foreldra, bjóða upp á ókeypis skólamáltíðir fyrir börn sem búa við fjárhagsþrengingar og auka niðurgreiðslur á tómstundastarfi fyrir börn sem búa við fjárhagsþrengingar.

Í skýrslunni kemur fram að lífskjör barna versnuðu hlutfallslega meira en lífskjör eftirlaunaþega og öryrkja í kjölfar hrunsins. Það skýrist að mestu af lækkandi atvinnutekjum foreldra en félagslegar greiðslur eins og barnabætur, fæðingarorlofsgreiðslur og húsaleigubætur gerðu lítið til að draga úr áfallinu. Ef eitthvað er jók þróun barnabóta á vandann.

Þarf að bæta kjör einstæðra foreldra

Þrátt fyrir það eru lífskjör barna á Íslandi góð í samanburði við flest önnur Evrópulönd. „Þó heildarmyndin sé ágæt eru engu að síður óleyst vandamál. Það brýnasta er að bæta lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra, en nærri fjögur af hverjum tíu börnum undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra. Einnig þarf að huga að börnum öryrkja,“ segir meðal annars í frétt um efni skýrslunnar á vef Velferðarvaktarinnar.

Ísland lagði hlutfallslega lægsta upphæð í barnabætur, fæðingarorlof og daggæslu þegar útgjöld allra Norðurlandana eru borin saman. Raunar stendur Ísland ekki framarlega hvað varðar barnabætur og fæðingarorlof þó samanburðurinn séu önnur Evrópulönd og réttindi til fæðingarorlofs allnokkuð frá því sem best gerist, samkvæmt skýrslunni.

Lestu skýrsluna Lífskjör og fáttækt barna á Íslandi 2004-2016 eftir Kolbein Stefánsson hér.

BSRB hefur beitt sér fyrir lengingu fæðingarorlofsins og því að umönnunarbilinu verði eytt. Kynntu þér skýrslu bandalagsins um dagvistunarúrræði hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?