Þjóðhagsráð starfað í eitt ár án launafólks

Fulltrúar launafólks hafa ekki tekið sæti í Þjóðhagsráði frá stofnun þess í júní 2016.

Takmarkaður áhugi stjórnvalda á félagslegum stöðugleika hefur orðið þess valdandi að fulltrúar launafólks hafa ekki tekið sæti í Þjóðhagsráði frá því það tók til starfa í júní í fyrra. Bæði BSRB og ASÍ telja sjónarhorn ráðsins of þröngt.

Þjóðhagsráð varð til í kjölfar yfirlýsingar stjórnvalda við gerð kjarasamninga í maí 2015 og er því ætlað að greiða fyrir gerð kjarasamninga. Litlar fréttir hafa borist af árangri ráðsins á því ári sem það hefur verið starfandi, en það kom fyrst saman 8. júní 2016.

Frá upphafi gerðu bæði BSRB og ASI athugasemdir við að ráðið ætti einungis að fást við að viðhalda stöðugleika út frá afar þröngri skilgreiningu á því hvað í því hugtaki felst. Ráðið hefur frá stofnun einblínt á efnahagslegan stöðugleika og leitt alfarið hjá sér mikilvægi þess að viðhalda einnig félagslegum stöðugleika.

Aðalfundur BSRB, sem haldinn var 17. maí síðastliðinn, ályktaði meðal annars um félagslegan stöðugleika. Þar voru stjórnvöld hvött til að horfa til félagslegs stöðguleika ekki síður en þess efnahagslega til að stuðla að stöðugleika í íslensku samfélagi. „Markmiðið verður að vera að auka jöfnuð í samfélaginu og færa það nær norrænu velferðarsamfélagi,“ segir í ályktuninni.

Fundurinn hvatti til þess að fallið verði frá áformum um skattalækkanir í þeirri uppsveiflu sem ríkir í samfélaginu. „Frekar ætti að auka tekjur ríkisins svo hægt verði að standa undir nauðsynlegum útgjöldum í velferðarkerfið, sem hefur verið skaðað verulega með niðurskurði undanfarinna ára,“ segir í ályktuninni.

Þó efnahagsmálin séu mikilvæg er ekki hægt að ná stöðugleika í samfélaginu með því að einblína á þau. Til þess að ná sátt í samfélaginu þarf að tryggja jöfnuð í samfélaginu. Til þess þarf til dæmis að ná samstöðu um að byggja upp félagslega kerfið og heilbrigðiskerfið.

Má ræða skatta en ekki í hvað þeir fara

Einhverra hluta vegna má ræða skattamál í Þjóðhagsráði, en ekki hvað skattarnir eiga að fara í. Stjórnvöld vilja ekki horfast í augu við að ráðast verður í kerfisbreytingar. Það þarf að auka skattgreiðslur þeirra sem hafa mest á milli handanna, einstaklinga og fyrirtæki, á sama tíma og byrðunum er létt af þeim sem minnstar hafa tekjurnar.

Þetta vilja stjórnvöld ekki ræða í Þjóðhagsráði. Þau hafa ekki heldur viljað koma á laggirnar öðru ráði, jafnsettu Þjóðhagsráði, þar sem hægt er að ræða þessi mál. Þar til það gerist er viðbúið að fulltrúar launafólks standi utan ráðsins. Það er þá þeirra sem þar sitja, fulltrúa ríkisstjórnarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands að greiða fyrir gerð kjarasamninga.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?