Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020 – 2024

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020 – 2024, 750. mál

Reykjavík, 14. maí 2019

BSRB hefur fengið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020 – 2024 sem byggir á fyrirliggjandi fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var á Alþingi í mars árið 2018.

Almennt um fjármálaáætlun fyrir árin 2020 – 2024

Fjármálastefnan frá mars 2018 felur í sér markmið ríkisstjórnarinnar og byggir fjármálaáætlunin þ.a.l. að nokkru leyti á rúmlega árs gömlum forsendum. Í ljósi þess er gripið til ýmissa ráðstafana til þess að bæta afkomu ríkissjóðs og halda áætluninni innan þess ramma sem settur var með fjármálastefnunni, t.a.m. með almennri aðhaldskröfu á opinberar stofnanir. Verði áætluninni fylgt getur það haft neikvæð áhrif á starfsmenn ríkisins. Einnig má búast við neikvæðum áhrifum á heilbrigðiskerfið og ýmis önnur mikilvæg verkefni.

Einungis er gert ráð fyrir 0,5% kaupmáttaraukningu á árunum 2020 – 2022 en 1,5% aukningu árin 2023 – 2024. Þetta samsvarar 4,3% nafnlaunahækkun árið 2019 og 3,8% árið 2020 en til samanburðar er gert ráð fyrir því í áætluninni að launavísitala hækki um 6,4% árið 2019 og 4,7% árið 2020. Forsendur fjármálaáætlunarinnar gera því ráð fyrir umtalsvert meiri launahækkunum á almennum vinnumarkaði en á hinum opinbera vegna þeirrar aðhaldskröfu sem sett verður á stofnanir ríkisins. Þessu telur BSRB að þurfi að breyta enda er enga umfjöllun að finna um það hvernig þessi tölulega forsenda kom til eða hvernig hún verði útfærð.

Rammi fjármálaáætlunar byggir meðal annars á áætlun Hagstofu Íslands um tekjur og útgjöld sveitarfélaga, sem hefur síðan verið leiðrétt upp að vissu marki. Í nýlegri bráðabirgðaniðurstöðu Hagstofunnar um afkomu sveitarfélaga fyrir árið 2018 er brugðið upp töluvert dekkri mynd en fyrirliggjandi fjármálaáætlun leggur upp með. Raunar er heildartap sveitarfélaganna rúmlega tvöfalt meira en gengið var út frá. Í umsögn Fjármálaráðs segir meðal annars að það „virðist nokkuð bratt að gera ráð fyrir jákvæðum afgangi upp á 0,2% út áætlunartímabilið“. [1] Það er því gagnrýnisvert að gert sé ráð fyrir að framlög ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði óbreytt í krónum talið fyrstu tvö ár áætlunarinnar, en hækki þar á eftir í samræmi við spá. Sú fyrirætlan er ekki til þess fallin að stuðla að jákvæðri heildarafkomu sveitarfélaganna að mati BSRB.

Í fjármálaætluninni er gengið út frá því að sveitarfélög sýni meiri festu og rekstur sveitarfélaganna snúist til betri vegar á næstu árum. Útsvarstekjur þeirra aukist og fylgi föstu hlutfalli af landsframleiðslu. Vissulega hækka útsvarstekjur samhliða launum en á móti kemur að launakostnaður er 47% af heildarútgjöldum sveitarfélaga. Tekjuaukningunni yrði því að mestu leyti mætt á kostnaðarhlið rekstrarreikningsins. Með hliðsjón af frystingu á framlagi ríkisins í Jöfnunarsjóð má því vera ljóst að fjármálaáætlunin mun setja sveitarfélögin í erfiða stöðu í kjarasamningsviðræðum sem nú eru í gangi. Á sama tíma þurfa stjórnvöld að veita auknu fé til forvarna og þannig bregðast við aukinni tíðni veikinda vegna sjúklegrar streitu og kulnunar. Það hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir einstaklinga og gríðarlegan kostnað fyrir samfélagið allt.

Á meðfylgjandi mynd má sjá launaþróun félagsmanna BSRB sem starfa annars vegar hjá ríkinu og hins vegar hjá sveitarfélögum. Þegar litið er til stöðu starfsmanna sveitarfélaga sést að laun þeirra hafa að jafnaði hækkað um rúm 14% frá 2006. Á sama tíma hefur almenna launavísitalan hækkað um rúm 23%. Verði fjármáláætlunin samþykkt óbreytt verður þessi mismunur festur í sessi.

Þróun reglulegra launa félagsmanna BSRB frá 2006 til 2018 

Fæðingarorlof og barnabætur

BSRB fagnar því að til standi að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði í áföngum. Tillaga stjórnvalda miðar að því að árið 2021 verði samanlagður réttur foreldra 12 mánuðir, fimm mánuðir á hvort foreldri og tveir sem foreldrar geta deilt sín á milli. Tekið er fram að markmiðið sé að tryggja báðum foreldrum jafna möguleika á að annast barn sitt í fæðingarorlofi þar til barninu býðst dagvistun á leikskóla. BSRB leggur áherslu á að réttur til fæðingarorlofs skiptist jafnt á milli foreldra, og leggur því til að hvort foreldri eigi sjálfstæðan rétt til 6 mánaða orlofs.

Rannsóknir frá Norðurlöndum sýna að mun líklegra er að feður nýti orlof ef þeir eiga sjálfstæðan rétt. [2] Um mikilvægt jafnréttismál er að ræða og einnig er það mikilvægur þáttur í því að tryggja rétt barna til samvista við báða foreldra. Í stefnu BSRB er einnig fjallað um að hækka þurfi hámarksgreiðslur frá fæðingarorlofssjóði og að greiðslur sem samsvari lágmarkslaunum verði óskertar, en þessi sjónarmið virðast ekki liggja að baki fjármálaáætlun.

Í tillögunni er einnig miðað við að almennt bjóðist börnum dvöl á leikskóla við 12 mánaða aldur. Afar misjafnt er milli sveitarfélaga hvernig dagvistunarmálum er háttað og BSRB hefur ítrekað bent á að lögfesta þurfi rétt barna til öruggrar dagvistunar strax að loknu fæðingarorlofi. Á öllum Norðurlöndum hafa börn slíkan rétt samkvæmt lögum. [3]

Það er stefna BSRB að almennt verði dregið úr skerðingum í bótakerfinu. BSRB hefur því lagt áherslu á það undanfarin ár, t.a.m. í umsögn vegna frumvarps til fjárlaga þessa árs, að horfið verði frá slíkum skerðingum. Mikið hefur dregið úr útgjöldum til barnabóta á undanförnum árum og því svigrúm til að hækka grunnfjárhæðir án þess að hækka skerðingarprósentur á móti. Fjármálaáætlunin gerir hins vegar ekki ráð fyrir umbótum á barnabótakerfinu né kemur þar fram sú áætlun stjórnvalda að hækka skerðingarmörk í 325.000 kr. árið 2020 eins og Lífskjarasamningarnir fela í sér. BSRB hvetur því til þess að þessi þáttur verði endurskoðaður og að tryggt verði að dregið sé úr skerðingum barnabóta vegna tekna.

Málefni heilbrigðiskerfisins og starfsmanna í almannaþjónustu

BSRB fagnar því að til standi að koma til móts við aukna greiðsluþátttöku sjúklinga með auknu fjárframlagi úr hendi ríkisins. Bandalagið vill þó að gengið sé lengra og að komið sé sérstaklega til móts við þá sem eru tekjulágir. Veikindi valda tekjumissi ofan á aðra erfiðleika og því ætti að halda sérstaklega utan um þá sem veikir eru og tryggja að þeir geti fengið þau lyf sem þeir þurfa nauðsynlega án mikils kostnaðar fyrir viðkomandi.

Stjórnvöld eiga að byggja upp opinbera þjónustu á Landspítalanum, heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og heilsugæslunni. Halda verður áfram markvissu átaki til að vinna niður biðlista eftir aðgerðum. Í ljósi þess að afkomumarkmiðum fjármálastefnunnar er ekki náð er brýnt að slík forgangsmál verði ekki niðurskurðarhnífnum að bráð. Byggja þarf upp þekkingu í opinbera heilbrigðiskerfinu svo hægt sé að miðla henni til nýrra kynslóða heilbrigðis-starfsfólks með markvissum hætti. Það á einnig við um nauðsynlegar úrbætur á starfsumhverfi starfsfólks í heilbrigðiskerfinu. Draga þarf úr álagi á starfsfólkið, hækka laun og minnka neikvæð áhrif vaktavinnu með því að stytta vinnuvikuna. Gera þarf stofnanir sem eru hluti af heilbrigðiskerfinu að aðlaðandi vinnustöðum fyrir vel menntað og öflugt starfsfólk til að tryggja nauðsynlega endurnýjun.

Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Mikil umræða hefur verið síðustu misseri um aðbúnað og öryggi á vinnustöðum, bæði um kynferðislega- og kynbundna áreitni og um kulnun og sjúklega streitu, og æskilegt er að brugðist verði við með afgerandi hætti. Að þeirri vinnu þurfa ýmsir að koma, en að mati BSRB eru stjórnvöld lykilaðili þar.

BSRB telur að enn hafi stjórnvöld ekki gripið til nægilega markvissra aðgerða til að bregðast við í kjölfar #metoo byltingarinnar. Hvað varðar streitu og kulnun hafa fjölmargar fréttir verið sagðar af aukinni ásókn í sjúkrasjóði stéttarfélaga og hafa sumir hverjir þurft að skerða sjúkradagpeninga og aðra styrki vegna þessa. [4] Enn fremur sýna nýjustu rannsóknir fram á að mörg ár geti tekið að ná bata fyrir þau sem lenda í kulnun. [5]

BSRB fagnar því áherslu á auknar forvarnir og heilsueflingu á vinnustöðum sem birtast í fjármálaáætlun en telur að ganga þurfi mun lengra. Athygli vekur einnig að ekki er samræmi í markmiðum hvað varðar fjölda fyrirtækja sem eiga að hafa gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað í fjármálaáætlun annars vegar og þingsályktunartillögu um áætlun fyrir árin 2019-2022 gegn ofbeldi og afleiðingum þess. [6] Í aðgerðaráætluninni (A.9) er miðað við að 60% vinnustaða hafa gert skriflega áætlun í lok árs 2020 en í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 46% árið 2020 og 55% árið 2024.

BSRB skilaði umsögn um ofbeldisáætlunina 11. janúar sl. og gagnrýndi þar meðal annars að stjórnvöld hefðu ekki lagt nægilega mikið fé eða áherslu á kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. [7] Í þessu samhengi má t.d. vísa til aðgerða Svía í kjölfar #metoo til samanburðar, en Svíar hafa ráðstafað 120 milljónum sænskra króna (andvirði yfir 1,6 milljarðs íslenskra króna), m.a. í menntakerfið, til stéttarfélaga, stofnana vinnumarkaðarins og réttarkerfisins, til að bregðast við. [8] Þá hefur danska ríkisstjórnin nýlega farið í metnaðarfulla stefnumótun til að bregðast við auknum sjúkdómum, streitu og kulnun, m.a. með þátttöku aðila vinnumarkaðarins og sérfræðinga. Í kjölfarið hefur verið gerður samningur þar sem lagðar eru til ýmsar lagabreytingar, áhersla aukin á forvarnir, aukið fjárframlag (allt að 460 milljónir DKR - andvirði 8,5 milljarða íslenskra króna) til Vinnu-eftirlitsins (Arbejdstilsynet) og fleira til. [9]

Jafnréttismál

Í stefnumótun hvað varðar jafnréttismál er fjallað um það markmið stjórnvalda að launajafnrétti verði náð og kynbundnum launamun verði útrýmt. BSRB fagnar þessari skýru stefnumótun, en bendir þó á að ekki er fjallað mikið um kynskiptan vinnumarkað og þann launamun sem stafar af því í fjármálaáætlun. Launarannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að stærstur hluti launamunar kynjanna er vegna kynskipts vinnumarkaðar. [10]

Eina markvissa aðgerðin sem stjórnvöld leggja fram er innleiðing jafnlaunavottunar og sjónum virðist einkum beint að leiðréttum launamun kynjanna. Mikilvægt er að vel takist til við innleiðingu jafnlaunastaðals, en þó verður ekki horft fram hjá því að jafnlaunavottun gildir eingöngu innan hvers fyrirtækis eða stofnunar fyrir sig. Vinnumarkaður á Íslandi er afar kynskiptur og mun jafnlaunavottun ekki leiðrétta það kerfisbundna vanmat sem er á launum margra kvennastétta, sem margar hverjar starfa á opinbera vinnumarkaðnum. BSRB hvetur stjórnvöld því til að taka loks á þeim launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og lýsir sig reiðubúið til að taka þátt í þeirri vinnu. Þá þarf einnig að horfa til óleiðrétts launamunar kynjanna, en lægri atvinnutekjur kvenna skila sér m.a. í lægri lífeyrisgreiðslum.

BSRB fagnar útgáfu fyrstu grunnskýrslu kynjaðar fjárlagagerðar og fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð. Þó tekur bandalagið undir áhyggjur félagsins Femínísk fjármál um að grunnskýrslunni sé ekki fylgt nægilega vel eftir í stefnumótun og að ekki sé leitast við að leiðrétta kynjamun sem þar er lýst í fimm ára fjármálaáætlun. BSRB hvetur stjórnvöld til að ganga lengra í að innleiða kynjaða fjárlagagerð með markvissum hætti, líkt og gert er ráð fyrir í 18. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015. BSRB styður jafnframt að skattaafsláttur í formi samnýtingar skattþrepa verði afnuminn og hvetur stjórnvöld til að hafa jafnréttissjónarmið ávallt í huga þegar skattkerfið er til umfjöllunar.

Húsnæðismál

Húsnæðisstuðningur dregst saman úr 31,2 ma. kr. í 10,7 ma. kr. árið 2020 til 2024, sem er til viðbótar við lækkun vaxtabóta undanfarin ár. Sú þróun kemur á óvart með tilliti til þeirra miklu fyrirheita sem stjórnvöld boðuðu í tengslum við gerð Lífskjarasamninga og í kjölfarið af skýrslu átakshóps forsætisráðherra í húsnæðismálum. Þar voru margar og ítarlegar tillögur sem varða leigufélög sem leigja út án hagnaðarsjónarmiða, húsnæðisbætur, stuðning við fyrstu kaupendur o.fl. sem ekki virðist hafa verið litið til við gerð fjármálaáætlarinnar. BSRB hvetur stjórnvöld til þess að útfæra þær tillögur sem allra fyrst, að þensluáhrif þeirra verði metin og þeim komið til framkvæmda.

BSRB leggur jafnframt áherslu á mikilvægi þess að húsnæðis- og vaxtabætur, og barnabætur sömuleiðis, eigi að vera almennur stuðningur við fjölskyldur líkt og á öðrum Norðurlöndum en ekki bara fyrir þá tekjulægstu líkt og raunin hefur verið hér á landi síðustu ár.


Fyrir hönd BSRB


Magnús Már Guðmundsson
Framkvæmdastjóri

 

[1] Axel Hall, Ásgeir Brynjar Torfason, Gunnar Haraldsson og Þórhildur Hansdóttir Jetzek. (2019). Álitsgerð fjármálaráðs um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024. Fjármálaráð. Sótt af https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-4987.pdf

[2] Nordic Health and Social Statistics, http://nowbase.org/database

[3] Skýrsla BSRB um dagvistunarúrræði (2017) https://www.bsrb.is/static/files/Utgefid_efni/skyrsla-bsrb-um-dagvistunarurraedi-mai-2017.pdf

[4] Breytingar á úthlutunarreglum Sjúkrasjóðs BHM (7. desember 2018) https://www.bhm.is/frettir/breytingar-a-uthlutunarreglum-sjukrasjods-bhm

[5] Forvarnir það eina sem dugir gegn kulnun (15. febrúar 2019) https://www.bsrb.is/is/frettir/frettasafn/forvarnir-thad-eina-sem-dugir-gegn-kulnun

[6] Tillaga til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019-2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, 149. löggjafarþing, þingskjal 550, 409. mál.

[7] Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019-2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-2513.pdf

[8] „120 miljonir till #metoo satningar – så ska pengarna användas“ Fréttatilkynning, aðgengileg á vef sænsku ríkisstjórnarinnar https://www.regeringen.se/pressmeddelanden/2018/07/120-miljoner-till-metoo-satsningar---sa-ska-pengarna-anvandas/ og „Regeringens samlada åtgärder mot sexuellt våld och trakasserier“ aðgengilegt á sama vef https://www.regeringen.se/artiklar/2017/12/regeringens-samlade-atgarder-mot-sexuellt-vald-och-trakasserier/ 

[9] Aftale om en ny og forbedret arbejdsmiljoinsdsats og ordnede forhold på arbejdsmarkdet, https://www.regeringen.dk/media/6629/aftale-arbejdsmiljoe.pdf.

[10] Velferðarráðuneytið (2015) Launamunur karla og kvenna, https://www.althingi.is/altext/pdf/149/s/1181.pdf, bls. 53 og Hagstofan (2018) Rannsókn á launamun kynjanna 2008-2016, 8.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?