BSRB kallar eftir greiðslum þegar smit lokar skólum

Fólk í tekjulægri hópum samfélagsins getur síður sinnt vinnu frá heimilinu.

BSRB kallar eftir því að foreldrar sem þurfa að vera heima með börnum sínum þegar skólum er lokað vegna kórónaveirusmits fái greiðslur á sama hátt og foreldrar barna sem eru í sóttkví. Þetta kemur fram í umsögn BSRB um fyrirhugaðar lagabreytingar til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónaveiru.

Samkvæmt frumvarpi stjórnvalda verða ýmis ákvæði sem sett voru tímabundið vegna faraldursins framlengd. Það á til dæmis við um greiðslur til fólks í sóttkví og hlutabætur. Þá verða tekjutengdar atvinnuleysisbætur greiddar í sex mánuði í stað þriggja áður. BSRB styður aðgerðir stjórnvalda en telur að ganga þurfi lengra í ákveðnum tilvikum.

Það á til að mynda við um foreldra sem þurfa að vera heima með börnum þegar skólar loka að hluta eða öllu leyti þegar smit kemur upp í hópi starfsmanna. Slík tilfelli hafa komið upp undanfarið án þess að komið hafi verið til móts við foreldra sem ekki geta sinnt vinnu heiman frá.

Eins og fram kom í könnun sem Maskína vann fyrir BSRB nýverið eru konur líklegri til að vera heima með börnum þegar skólar eru lokaðir. Þá á getur fólk í tekjulægri hópum getur síður unnið heiman frá. Lokanir í skólum munu því bitna verst á konum og tekjulægri hópum samfélagsins og brýnt að bregðast við því með greiðslum sambærilegum við þær sem renna til þeirra sem þurfa að vera í sóttkví.

Afkoma heimilanna verði tryggð

Frá upphafi faraldursins hefur BSRB lagt höfuðáherslu á að tryggja afkomu heimila landsins. Nú þegar atvinnuleysi hefur aukist gríðarlega er mikilvægara en nokkru sinni að fjárhæðir atvinnuleysisbóta fylgi launahækkunum sem samið hefur verið um í kjarasamningum undanfarin ár. Þá kallar BSRB eftir því að bótatímabilið verði lengt og tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta sömuleiðis.

BSRB vill ítreka þá skoðun sína að nauðsynlegt er að hækka atvinnuleysisbætur úr 289.510 kr. á mánuði í 320.720 kr., en það jafngildir hækkun kauptaxta samkvæmt Lífskjarasamningnum á árunum 2019 og 2020. Mikilvæg er að fjárhæðir atvinnuleysistrygginga fylgi launahækkunum til samræmis við kjarasamninga til þess að stuðla að sem minnstum ójöfnuði hér á landi.
- Úr umsögn BSRB.

Í umsögn bandalagsins er því fagnað að lengja eigi rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr þremur mánuðum í sex, en kallað eftir því að tekjutengdar greiðslur verði hækkaðar. Tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru nú að hámarki 456.404 krónur á mánuði og aðeins er greitt sem nemur 70 prósent af fyrri launum. Til samanburðar má benda á að hámarksábyrgð Ábyrgðasjóðs launa er 633.000 krónur á mánuði og laun í uppsagnarfresti með stuðningi úr ríkissjóði nema að hámarki 633.000 krónum á mánuði.

Atvinnuleysi er fólki almennt erfitt og fjárhagslegt óöryggi sem því veldur mikill streituvaldur. Með hækkun tekjutengdra atvinnuleysistrygginga og hækkun grunnbóta yrði framfærsla þess stóra hóps sem úrræðið mun ná til að öllu leyti betur tryggð. Fólk yrði betur í stakk búið til að takast á við atvinnuleit, taka ákvarðanir um nám eða aðrar leiðir til að afla sér lífsviðurværis til framtíðar. Hækkunin myndi einnig leiða til aukinnar kaupgetu mörgþúsund einstaklinga og vinna þannig gegn enn frekari samdrætti í efnahagslífinu.
- Úr umsögn BSRB.

Réttur til náms í tvær annir

BSRB fagnar því að atvinnuleitendur geti stundað nám á framhalds- og háskólastigi en telur eðlilegra að miða við tvær annir í stað einnar, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þannig yrði hægt að nýta úrræðið í eitt skólaár sem stuðlar að meiri fyrirsjáanleika og stöðugleika þeirra sem nýta úrræðið.

Í umsögn BSRB er því fagnað að lengja eigi möguleika á að nýta hlutabótaleiðina, en kallað eftir því að ákvæðið verði framlengt í meira en tvo mánuði. „Þegar úrræðið var sett upphaflega var uppi mikil óvissa og því skiljanlegt að stjórnvöld hafi gert úrræðið tímabundið til skamms tíma. Núna hálfu ári síðar er staðan að vissu leyti önnur og flestir sérfræðingar á þeirri skoðun að það muni taka tíma fyrir efnahagslífið að ná jafnvægi á ný,“ segir meðal annars í umsögninni. Með því að framlengja ákvæðið til lengri tíma megi auka fyrirsjáanleika í rekstri fyrirtækja á þeim óvissutímum sem nú eru uppi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?